138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

virðisaukaskattur.

460. mál
[15:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Í frumvarpi þessu er lagt til að heimila bílaleigum tímabundið að reikna innskatt af kaupverði notaðra fólksbifreiða þó svo að virðisaukaskattur hafi ekki verið lagður á við sölu viðkomandi bifreiða til bílaleigunnar.

Í því efnahagsástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu hafa verið miklir rekstrarerfiðleikar hjá bílaleigum og hefur bílafloti þeirra minnkað töluvert á milli ára. Þannig voru 6.700 bílaleigubílar skráðir árið 2008 en 6.200 í ágúst 2009 og áætluð þörf samkvæmt upplýsingum frá Samtökum ferðaþjónustunnar er um það bil 8.700 bifreiðar fyrir árið 2010. Fjármögnun nýrra bifreiða reynist kostnaðarsöm og erfið fyrir bílaleigurnar vegna veikrar stöðu íslensku krónunnar, auk þess sem mikið framboð er af notuðum bifreiðum um þessar mundir. Fyrirsjáanleg er fjölgun ferðamanna til landsins á þessu ári og því stefnir í að bílaleigur muni vanta bifreiðar til útleigu. Til að bregðast við þessu ástandi er lagt til í frumvarpi þessu að bílaleigur sem hafa rekstrarleyfi samkvæmt lögum nr. 64/2000, um bílaleigur, og kaupa notaðar fólksbifreiðar til útleigu geti reiknað innskatt af kaupverði bifreiðanna í þeim tilvikum þar sem virðisaukaskattur hefur ekki verið lagður á við söluna til þeirra. Þar sem virðisaukaskattur er ekki tilgreindur á reikningi við kaup þessara bifreiða er lagt til að reiknaður innskattur nemi 20,32% af kaupverði notaðrar bifreiðar.

Þar sem um undantekningarákvæði er að ræða er talið rétt að takmarka fjölda þeirra bifreiða sem hljóta skulu þessa meðferð. Í frumvarpinu er lagt til að hlutur þessara bifreiða í heildarflota hverrar bílaleigu verði ekki hærri en 15% miðað við gildistöku laganna.

Í frumvarpinu er lagt til að heimild til að reikna innskattinn á framangreindan hátt muni gilda til 31. desember 2010.

Erfitt er að áætla með einhverri nákvæmni hversu hár innskattsdráttur bílaleiganna sem munu nýta sér framangreinda heimild verður verði frumvarp þetta að lögum. Sé miðað við þær forsendur að bílafloti þeirra aukist um 15% í formi notaðra bifreiða, eða um nálægt 1.000 bifreiðar, sem allar njóti innskatts og innkaupsverð þeirra sé að jafnaði 1,5–2 millj. kr. nemur innskattsfrádrátturinn samtals um 300 millj. kr. Til lengri tíma litið má þó gera ráð fyrir að tekjutap ríkissjóðs vegna þessarar aðgerðar verði mun minna, bæði vegna aukinna umsvifa bílaleiganna og endursölu bifreiðanna síðar með virðisaukaskatti.

Það er mikilvægt að allt sé gert sem hægt er og þjóðhagslega skynsamlegt til þess að styðja við bakið á þessari mikilvægu starfsemi. Sú þróun er í gangi í ferðaþjónustunni að sífellt fleiri ferðast á eigin vegum og kjósa að nýta sér bílaleigubifreiðar til að ferðast um landið. Miðað við þær horfur sem nú eru í ferðaþjónustunni og góðar bókanir er ærin ástæða til að ætla að veruleg vöntun verði á bílaleigubílum í sumar að öllu óbreyttu. Það er að sjálfsögðu líka þjóðhagslega hagkvæmt að nýlegar eða jafnvel nýjar bifreiðar sem standa hér á plönum í stórum stíl verði frekar nýttar í þessu skyni og þessari aðgerð er einmitt ætlað að vera hvetjandi í þeim efnum. Óþarfi er að segja að þar sem ferðaþjónustuaðilar undirbúa nú sumarið af kappi væri ákaflega æskilegt að það skýrðist á næstu vikum eða sem fyrst hvort hið virðulega Alþingi fellst á þessa tilhögun. Að þessu sögðu, frú forseti, legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari.