138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. Einar K. Guðfinnssyni, þessi flækjustig í karfaskiptingunni voru til staðar. Við reyndum í nefndinni hvað við gátum og með samræðum við ráðuneytið að greiða úr því. Niðurstaðan varð þessi sem lagabreytingartillagan felur í sér, hún er breyting sem gerð var við 2. umr. þessa máls og málið fór að gefnu tilefni þess o.fl. til nefndar milli 2. og 3. umr.

Ég get ekki sagt hvað kemur í ljós um aflareynsluna. Ef veruleg frávik og ósanngjörn niðurstaða kemur í ljós vonast ég til að það verði hægt að leiðrétta með reglugerð og mun þá beita mér fyrir því. Þá er e.t.v. hægt að nota tvær aðferðir við það, annars vegar að fara inn í reiknigrundvöllinn, ég get þá hugsað mér breytingar á reiknigrundvallarreglunum. Hin leiðin er sú sem kann að verða auðveldari, að leiðrétta hugsanlega mismunun við úthlutun. Þetta eru hugleiðingar mínar en ekki endilega það sem verður samt. Annað eins hefur verið gert því að þetta stendur ekki upp á það mörg tonn að það fari að hrikta í undirstöðum kerfisins.

Markaðsverð, viðmiðun og annað slíkt var rætt fram og til baka og niðurstaðan varð þessi. Síðan verður reynslan að skera úr um það hvernig til tekst.