138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:07]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þær umræður sem hér fara fram um þetta lagafrumvarp eru að mörgu leyti málefnalegar og hafa verið það. Það er hins vegar rétt, sem segir í framhaldsnefndaráliti minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, að gríðarlegur ágreiningur er um frumvarpið. Það er gríðarlegur ágreiningur um lögin um stjórn fiskveiða og hefur verið í mjög mörg ár á Íslandi.

Í framhaldsnefndarálitinu segir enn fremur:

„Nær einsdæmi má telja að nánast allir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hafi krafist þess að frumvarpið verði ekki afgreitt, …“

Hver er hagsmunaaðili þegar kemur að lögum um stjórn fiskveiða á Íslandi? Eru það eingöngu þeir sem starfa í útgerð, eru það eingöngu fiskvinnslustöðvar, félög vélstjóra og sjómanna? Er það ekki hvert einasta mannsbarn á Íslandi? Er ekki hver einasti Íslendingur hagsmunaaðili þegar kemur að stjórn fiskveiða?

Nú hefur ríkisstjórnin reynt að koma til móts við hluta þeirrar óánægju sem hefur verið einkennandi fyrir þennan málaflokk, annars vegar með þessu litla skrefi, sem snýst um nokkur hundruð tonn af skötusel, og strandveiðunum. Það hefur verið reynt að koma til móts við mjög mikla óánægju sem hefur verið með stjórn fiskveiða á Íslandi með þeim tveimur málum en um það hefur skapast gríðarleg óánægja á meðal útgerðarmanna.

Ég vil einfaldlega spyrja hv. þm. Ásbjörn Óttarsson: Hvaða leiðir sér hann til þess að fá (Forseti hringir.) hagsmunaaðila á borð við LÍÚ til þess að koma að sáttaborði, þó ekki væri nema bara að svara símtalinu?