138. löggjafarþing — 96. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[16:12]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég skrifa ekki undir álit meiri hluta samgöngunefndar í þessu máli og það er í grunninn út af efasemdum sem ég setti fram um þessa lagasetningu við 1. umr. Ég ætla í sjálfu sér ekki að endurtaka þær efasemdir, en í stuttu máli snerust þær þó um að benda á að ekki ríkir sátt á launamarkaði á Íslandi og þetta er ekki leiðin til að skapa hana. Ef við lítum yfir aðgerðir ríkisstjórnarinnar bara í síðustu viku er annars vegar boðað að skattleggja afskriftir af lánum sem hefur ekki verið útskýrt neitt frekar og birtist sem blaut tuska í andlit almennings og hins vegar þetta, að setja lög á verkföll. Þessi skref eru augljóslega ekki til sáttar fallin í samfélaginu. Mér finnst mjög mikil ástæða til að gjalda varhuga við þessum skrefum, vekja spurningar og láta í ljós efasemdir og jafnframt brýna ríkisstjórnina til að grípa til einhverra aðgerða sem eru til þess fallnar að skapa sátt við erfiðar aðstæður á íslenskum vinnumarkaði. Tugir samninga á vinnumarkaði eru lausir í nánustu framtíð. Þetta getur augljóslega ekki verið leiðin til að glíma við það mál. Við ætlum ekki að setja lög á öll verkföll sem verður mögulega gripið til á Íslandi. Það getur ekki verið.

Þessar efasemdir gera það að verkum að ég tel mér ekki fært að vera á þessu máli. Við í þingflokki framsóknarmanna komumst að þeirri niðurstöðu að við teljum okkur það ekki fært. Að því sögðu verður hins vegar líka að horfast í augu við það að verkfall flugvirkja er ótímasett og ég hef fengið nokkra tilfinningu fyrir því í meðförum nefndarinnar, þótt starf hennar hafi staðið stutt, að það er ekki lausn í sjónmáli. Það er mikilvægt fyrir Íslendinga að flugsamgöngur gangi fyrir sig með einhverjum eðlilegum hætti og í ljósi þessa teljum við mikilvægt að reyna að koma á einhvern hátt að lausn þessa máls, nú þegar í svo mikið óefni er komið. Í því ljósi legg ég fram svohljóðandi breytingartillögu við lagafrumvarpið:

„2. gr. orðist svo:

Kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins f.h. Icelandair hf. við Flugvirkjafélag Íslands, sem rann út 31. október 2009, skal halda gildi sínu þar til gerðardómur, skipaður einum fulltrúa frá hvorum deiluaðila og oddamanni sem ríkissáttasemjari tilnefnir, hefur leyst úr ágreiningi aðila um endurnýjun kjarasamnings, nema nýr kjarasamningur sé gerður með samkomulagi milli aðila skv. 3. gr. Gerðardómur skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 30. maí 2010 og gilda þær breytingar til 30. nóvember 2010.“

Þetta er tillaga okkar framsóknarmanna til að leysa þetta mál. Við teljum hana mun manneskjulegri leið í þessu óefni sem við erum komin í með þetta mál. Það er nefnilega alveg afleitt þegar maður setur bann á verkfall að þá skilur maður þá stétt eftir nánast vopnlausa í kjaradeilunni. Með þessari leið leggjum við til að áfram verði sú svipa, getum við orðað það, höfð á viðsemjendunum um að málið muni fara í gerðardóm nema viðsemjendur nái að leysa það áður þannig að menn hafi þá alltaf yfir sér að gerðardómur úrskurði í lok maí um lausn deilunnar. Ég held að það sé líka almennt mjög skiljanleg og góð lausn á deilumálum að skjóta þeim í dóm. Hér höfum við langvarandi deilu sem sér ekki fyrir endann á þannig að ég mundi telja að það væru ansi góð rök fyrir því að fara þessa leið.

Flugvirkjar hafa, án þess að maður ætli að blanda sér mikið inn í þeirra kjaradeilu, ýmislegt til síns máls. Ég kom að því við 1. umr. þessa frumvarps að þeir starfa í útflutningsatvinnugrein. Þeir fá greidd laun í dollurum og laun þeirra hafa lækkað um helming í dollurum og ég ætla að gera það að mínum lokaorðum að auðvitað verðum við á Alþingi Íslendinga að fara að taka umræðu um hversu há launahækkun sé leyfileg til þeirra sem núna eru svo miklu samkeppnishæfari gagnvart útlöndum. Hvað má áliðnaðurinn hækka mikið laun til starfsmanna sinna? Hvað má sjávarútvegurinn hækka launin mikið? Hvað mega flugfélögin hækka launin mikið? Hvað má ferðaþjónustan hækka launin mikið? Hversu mikið mega þessir atvinnuvegir sem hafa tekjur í erlendum gjaldeyri, og því má halda fram að laun gagnvart útlöndum hafi minnkað um helming, hækka í launum? Þessa umræðu höfum við ekki tekið.

Ég legg til að við samþykkjum breytingartillöguna um gerðardóm enda er það á allan hátt betri leið til að útkljá þessa leiðinlegu deilu.