138. löggjafarþing — 96. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[16:39]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af orðum hv. þingmanns, ef ég hef sagt fullreynt hef ég ofmælt, auðvitað get ég ekki lagt mat á það hvort þetta er fullreynt eða ekki. Ég taldi og sagði í andsvari áðan að ég teldi þetta útspil ríkissáttasemjara vera einmitt þá leið sem væri verið að fara í þessum hluta. Ég get engan veginn fullyrt um hvort það sé fullreynt þannig að það sé alveg klárt frá mínum bæjardyrum séð.

Ég tek undir með hv. þingmanni, við þurfum að losa þann hnút sem núna er kominn. Það kom líka fram hjá flugvirkjum á fundi samgöngunefndar þegar hv. þm. Guðmundur Steingrímsson spurði þá þessarar spurningar að þeir höfðu ekkert hugsað þessa lausn sem slíka þannig að það var ákveðið tómarúm líka af hálfu þeirra. Þeir höfðu ekkert hugsað sér hvort þetta væri skynsamleg leið eða fær yfir höfuð. Þegar menn fara með málin í þennan farveg undir eðlilegum kringumstæðum er einmitt verkfallsrétturinn ekki til staðar og þá fara menn þessa leið.

Að lokum ítreka ég það sem ég sagði, þetta er ekki langur tími, það er mikið í húfi og miðað við aðstæðurnar í þjóðfélaginu þar sem mönnum stendur til boða 11% launahækkun hef ég samvisku til að samþykkja þetta frumvarp óbreytt.