138. löggjafarþing — 96. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[16:48]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal komst að kjarna málsins þegar hann talaði um að hér væri vinstri stjórn að setja lög á verkföll. Þvílík tilviljun, þvílíkur veruleiki fyrir núverandi Vinstri græna, áður Alþýðubandalagið, að þurfa að standa á Alþingi og setja lög á verkföll. Mér er sagt að á flokksráðsfundum hjá þessum stjórnmálaflokki sé Maístjarnan sungin. Það eru erfiðir tímar, það er atvinnuþref, ég hef ekkert að bjóða, segir m.a. í kvæðinu en svo eru vinstri grænir komnir til þess að setja lög á verkföll, hinn helgasta rétt hvers einasta manns sem hann hefur. Þetta er ekkert annað en brot á mannréttindum.

Eins og ég fór yfir áðan í andsvörum er þetta varið í stjórnarskrá Íslands og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þessi helgi réttur er varinn alls staðar. En nú fer vinstri velferðarstjórnin fram með þetta og það er verið að setja lög á þá aðila sem þessi lög eiga að beinast að þrátt fyrir, ég endurtek, að betri lausn liggi fyrir, sú að fara með deiluna í gerðardóm.

Mig langar til að benda hv. þm. Pétri Blöndal á að verkföll eru ekkert einsdæmi á Íslandi þótt þau beinist gegn þriðja aðila. Verkföll beinast alltaf að einhverjum og það er akkúrat vopn þeirra, að fá þann þrýsting á samningsaðila að setjast að borðinu upp á nýtt og semja.

Fleiri tugir samninga eru lausir á þessu ári. Ég spyr þingmanninn að lokum: Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að standa með ríkisstjórninni hér í framtíðinni við að setja lög á verkföll allra þeirra aðila sem eiga eftir að semja á þessu ári? Síðustu samningarnir renna út 31. desember á þessu ári. Þetta eru fleiri tugir samninga. Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að halda áfram að styðja ríkisstjórnina í lagasetningu á verkföll aðila?