138. löggjafarþing — 96. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[16:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja hv. þingmanni að þingmönnum ber að fara eftir sannfæringu sinni en ekki flokkslínum. Ég hef alltaf farið eftir sannfæringu minni og líka í ræðu minni áðan.

Ég ætla ekkert að styðja ríkisstjórnina í því að setja lög á verkföll almennt. Þetta verkfall sem við erum að tala um dansar alveg út úr röðinni. Það er búið að gera ákveðinn stöðugleikasáttmála sem þessir aðilar telja sig ekkert skuldbundna af. Það er vandamálið. Það er það sem við erum að glíma við. Ég sagði áðan að það væru hláleg örlög fyrir svokallaða velferðarstjórn og Vinstri græna alveg sérstaklega að standa að svona lagasetningu. Það er þeirra vandamál en ekki mitt og ég ætla ekki að verja þá neitt.

Ég tel að menn þurfi alltaf að horfa til alls samfélagsins þegar þeir taka ákvarðanir og velta fyrir sér hvernig það hefur áhrif á aðra. Ég talaði áður um haghafa, „stake holders“. Það er fólk í samfélaginu sem líður fyrir þetta, bæði einstaklingar sem missa af ferðum, en alveg sérstaklega heilu atvinnugreinarnar sem horfa með skelfingu á það ef afbókanir streyma inn, líka launþegar og láglaunafólk, sem óttast að missa vinnuna sína. Til þessa þurfa menn að horfa, alveg sérstaklega stéttarfélög. Þau geta ekki dansað svona ein í sínum valsi eða tangó og látið alla hina hrynja um koll. Til þessa þurfa menn að horfa.

Þess vegna styð ég þetta frumvarp þó að mér sé meinilla við að grípa inn í samningsrétt manna eða hafa yfirleitt áhrif á kjarasamninga eða aðra samninga.