138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

stjórnarskipunarlög.

469. mál
[14:48]
Horfa

Flm. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi nota tækifærið til að þakka öllum þingmönnum vel fyrir sem hafa tekið þátt í meðflutningi og umræðum um málið, því eins og hv. þm. Þór Saari sagði er þetta eitt stærsta lýðræðisumbótamálið sem við vinnum að núna. Þetta er grundvallarmál og það á mikinn stuðning í öllum flokkum. Ég talaði við marga þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem lýstu sig nokkuð fylgjandi málinu, þótt þeir væru enn þá að velta því fyrir sér kostum, göllum og agnúum eins og hv. þm. Pétur Blöndal nefndi áðan. Hann var með margar ágætar hugmyndir. Eins og vakin hefur verið athygli á í dag þurfum við í fyrsta lagi að skilja alveg á milli byggðasjónarmiða og mannréttindasjónarmiða. Það er annað mál og við leysum það öðruvísi. Ég held að fátt muni gagnast byggðum okkar meira en að allir þingmenn Íslendinga séu þingmenn allrar þjóðarinnar. Það dregur úr vægi sérhagsmuna og þrengri kjördæmahagsmuna og vinnur landinu öllu mikið gagn.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi flokksræðið og hafði áhyggjur af því. Það er sjálfsagt að skoða það. Ég held hins vegar að flokksræðið t.d. í Bretlandi, þar sem eru einmenningskjördæmi, sé alveg gríðarlegt en það helgast af öðru. Það helgast af því taki sem forusta hefur oft á sínum mönnum sem vilja komast áfram, upp stigann og í ríkisstjórn o.s.frv. og ég held að það verði til staðar sama hvaða fyrirkomulag við höfum þarna á. Ég dreg ekki í efa að margt af því sem hv. þingmaður sagði var rétt. Við þurfum að finna leið til að draga úr flokksræðinu. Ég held að persónuvalið geri það og við getum fundið aðrar leiðir til að draga enn þá meira úr því eins og þingmaðurinn nefndi áðan.

Við þurfum að skoða þetta allt í samhengi. Þetta eru allt mjög góðar vangaveltur og umræður fyrir sérnefnd um stjórnarskrá sem fær þetta til umfjöllunar á næstunni. Ég ítreka og tek undir það sem kom fram áðan að hér er fyrst og fremst um að ræða mannréttindamál. Það er eins með þröskuldinn, hann má ekki vera of hár, því hann má ekki verða til þess að fæla grasrótarframboð frá því að bjóða fram (Forseti hringir.) um einstök mál til dæmis.