138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

stöðugleikasáttmálinn.

[16:11]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur að stöðugleikasáttmálinn er meira en skötuselur og vonbrigði hagsmunaaðila vinnumarkaðarins eru vegna fleiri hluta en hans. Ein af forsendum sáttmálans var að ekki yrðu sett lög á kjarasamninga sem mundu hafa bein áhrif á innihald þeirra. Hvað gerðum við í gær?

Það er líka fjallað um að mikilvægt væri að bæta stöðu skuldsettra heimila. Hefur það verið gert með nægilega ásættanlegum hætti? Það var talað um að ríkisstjórnin mundi greiða götu ákveðinna stórframkvæmda eins og álvera í Helguvík og Straumsvík og að engar hindranir yrðu af hálfu stjórnvalda í vegi slíkra framkvæmda eftir 1. nóvember 2009. Hvaða dagur er í dag?

„Sveitarfélög og önnur stjórnvöld tryggi að farið verði að tímafrestum við gerð skipulags og allar leyfisveitingar og greitt verði fyrir nýjum fjárfestingum eins og kostur er.“

Geta menn rifjað upp starfshætti hæstv. umhverfisráðherra við Suðvesturlínu og aðalskipulög sveitarfélaga? Þetta eru nokkur atriði, auk atriðisins sem fyrirvari Samtaka atvinnulífsins vegna sjávarútvegsins var um í stöðugleikasáttmálanum sjálfum. Hann hljóðaði svona, með leyfi forseta:

„Samtök atvinnulífsins viðhalda þeim fyrirvara gagnvart framlengingu kjarasamninga að vinna á vegum ríkisstjórnarinnar um endurskoðun fiskveiðistjórnar verði í þeim sáttafarvegi sem lagt var upp með við skipan nefndar til þess að vinna að því máli.“

Það getur ekki komið nokkrum manni á óvart, ekki heldur í ríkisstjórninni, sama hvar hún hefur falið sig. Það er augljóst að ábyrgð á þeirri uppákomu að búið sé að slíta stöðugleikasáttmálanum er stjórnarmeirihlutans og ekki annarra.

Það er ekki nóg að kenna og klína öllu á Samtök atvinnulífsins og LÍÚ. Forseti Alþýðusambandsins sagði miður hvernig málum væri komið, sátt hefði náðst um að ræða sjávarútvegsmálin í nefnd en síðan hefði sjávarútvegsráðherra lagt málið til hliðar við þær viðræður. Það skýtur skökku við að stjórnvöld fari fram með slíkum ofsa um svona lítið mál (Forseti hringir.) nema málið sé orðið að prinsippmáli. Hann veltir því upp hvort nefndarstarfið um sjávarútvegsmál sé bara plat.

Ég spyr: Var stöðugleikasáttmálinn plat? (Gripið fram í: Rétt.)