138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

468. mál
[17:17]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Ég vil ekki endurtaka mikið það sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson sagði hér áðan en tilgangurinn með þessu frumvarpi er fyrst og fremst sá að jafna hlutfallið á milli þeirra sem setja inn í þessa potta, þ.e. að allar útgerðir verði skertar jafnt en ekki eingöngu sett inn í þessa potta í þessum fjórum fisktegundum. Við leggjum til að það sé ekki gert heldur muni allir skaffa jafnmikið inn í þessa potta, hvort sem þeir eru með aflamark í þorski, ýsu, ufsa, steinbít eða karfa. Þetta er sem sagt jafnræðissjónarmið. Þetta eru fjórir pottar, fyrst og fremst skel- og rækjubætur, byggðakvóti, línuívilnun og síðan koma strandveiðar núna til viðbótar. Þetta þýðir í raun, virðulegur forseti, að t.d. á næsta ári, miðað við þetta ár núna, munu þeir sem eru með þorskveiðiheimildir setja 8,6% inn í þetta. Þeir sem eru með ýsu setja 6,7% af sínum heimildum, þeir sem eru með ufsa u.þ.b. 3% og þeir sem eru með steinbít um 9%. Aðrar tegundir eru ekki inni í þessum potti, þ.e. sá sem er með heimildir í karfa, kola, síld, loðnu, rækju, keilu og löngu setur ekkert af þeim heimildum í þennan pott.

Ég tek undir það sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson sagði áðan að ætlum ekki að breyta neinu í þessum pottum við afgreiðslu þessa máls. Það verður áfram byggðakvóti og línuívilnun, það verða áfram bætur vegna skel- og rækjubrests og síðan koma strandveiðarnar til viðbótar. Þetta er einungis jafnræðissjónarmið.

Mig langar til þess að undirstrika og draga það fram að fyrirtæki setja hlutfall af sínum aflaheimildum inn í þessa potta, t.d. setur Ísfélag Vestmannaeyja 1,2%. Síldarvinnslan setur 0,8% af sínum veiðiheimildum í þessar aðgerðir. Hraðfrystihús Þórshafnar setur 0,4%. Síðan getur maður tekið hefðbundna vertíðarbáta og ég vil nefna tvo þeirra, Steinunn SH setur 4,4% og Saxhamar SH líka. Það sjá allir hversu óréttlátt þetta er. Hugsunin á bak við þessa potta er sú að byggðakvótinn sé vegna þess að byggðarlögin eru í vandræðum, aflaheimildir voru fluttar frá þeim og þar fram eftir götunum og þá vilja menn hafa inngrip stjórnvalda til þess að rétta það af og hjálpa þeim byggðum að komast í gegnum það. Skel- og rækjubæturnar eru hugsaðar þar sem brestur hefur orðið bæði í skel og rækju og þá fá viðkomandi útgerðaraðilar bætur vegna þessa. Öll þekkjum við línuívilnun og síðan koma til viðbótar strandveiðar.

Þetta er fyrst og fremst réttlætissjónarmið um að allir setji sama hlutfall af sínum aflaheimildum inn í þennan pott til þess að verða við þeim afföllum, eða í þessu tilfelli eins og með byggðakvótann, eða því sem viðkemur úthlutun úr viðkomandi pottum að allir muni setja sama inn í það. Það er ekkert réttlæti í því. Þeir sem eru með þorsk þurfa að setja 8,6%, ýsu 6,7%, steinbít 9% en þeir sem eiga allar hinar tegundirnar þurfa ekki að setja neitt. Það er oft og tíðum mjög sláandi að lesa þennan lista, að það eru yfirleitt stærstu útgerðarfélögin sem setja minnsta hlutfallið af sínum aflaheimildum inn í þessa potta. Þetta er því fyrst og fremst réttlætissjónarmið, að allir setji inn sömu prósentutölu af sínum heimildum til þess að koma til móts við þetta, eins og ég hef svo margoft sagt hér í sambandi við þessar sértæku aðgerðir. Við erum ekki að leggja til að þessu verði breytt, heldur eingöngu að það verði jafnað milli aðila svo að þeir setji jafnt inn í þetta.

Ég tek undir með hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni sem mælti fyrir þessu frumvarpi að ég vona að það fái efnislega og góða meðferð í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.