138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

starfsstöðvar Ríkisútvarpsins.

362. mál
[14:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Þessi umræða hefur verið ágæt. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra talaði um að Ríkisútvarpið væri að gera tilraunir til að efla fréttaflutning af landsbyggðinni. Nú hef ég á hverju kvöldi mörg undangengin ár farið á textavarpið og skrollað þar á síðum 140–159. Það eru fréttir sem eru að norðan, austan og vestan. Meginreglan hefur verið sú að það eru fimm til sex fréttir af hverju svæði — ein af þeim ratar stundum í fjögur- eða sex-fréttirnar en ekki hinar fjórar. Nú er varla stingandi strá á þessum síðum, það er nær enginn fréttaflutningur af þessum svæðum. Það er mjög mikilvægt fyrir þessi svæði að geta ræðst við inn á við eða haft fréttir sem rata ekki endilega í stóru fréttatíma Ríkisútvarpsins. Þetta er það sem ég vil hlúa að. Ég vil sjá að áfram verði virkur fréttaflutningur af þessu svæði.

Ég tek undir með hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni og spyr hæstv. ráðherra að því hvort henni finnist þessi hlutföll á milli starfsmanna Ríkisútvarpsins, sem eru annars vegar hér á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar á landsbyggðinni, í lagi. Yfir 90% eru hér á suðvesturhorni landsins á meðan þriðjungur þjóðarinnar býr vítt og breitt um landið.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra að því, og ég minntist aðeins á það í fyrri ræðu minni, hvað henni finnist um húsnæðismál stofnunarinnar. Nú er verið að hagræða á landsbyggðinni með því að segja upp leigu á litlum stöðvum en menn skoða ekki aðalvandamálið sem er gríðarlegur kostnaður við mjög óhentugt húsnæði Ríkisútvarpsins í Efstaleiti. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún hafi skoðun á því hvort ekki væri rétt að fara að skoða þessi húsnæðismál þannig að verja megi fjármunum betur en nú er gert. Húsnæðið sem þar er fyrir hendi er mjög óhagkvæmt og þá mætti jafnvel verja þeim fjármunum í að segja alvörufréttir af landsbyggðinni.