138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

teymisvinna sérfræðinga.

232. mál
[18:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svör við fyrri fyrirspurn minni bæti ég við spurningu sem tengist nákvæmlega sama máli og ég minntist á áðan. Ég nálgast þetta út frá reynslusögu eins sjúklings og spurningin um rafræna sjúkraskrá og sú sem hér kemur koma báðar til vegna þess að á meðal þess sem Atli Thoroddsen lýsir í bók sinni, sem ég minntist á í fyrri fyrirspurn minni, er samstarf sérfræðinga af ólíkum sviðum, svokölluð teymisvinna, í kringum þá einstaklinga sem greinast með flókna sjúkdóma.

Í bókinni sem kom út fyrir jól eða í nóvember sl. lýsir Atli baráttu sinni fyrir breytingum í þessum efnum og segir m.a. frá fundi sem hann átti með stjórnendum Landspítala – háskólasjúkrahúss um þessi mál og ekki var annað að sjá af þeirri lesningu en að það hillti undir breytingar í þá átt að menn væru að mynda sérstaka heild í kringum sjúklinginn sem ynni saman að lausn mála hans. Því er þessi fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra komin til:

Hvað líður vinnu innan heilbrigðiskerfisins sem miðar að því að einfalda umönnun sjúklinga með flókna sjúkdóma þar sem sérstök teymisvinna sérfræðinga á ólíkum sviðum er nauðsynleg?