138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

teymisvinna sérfræðinga.

232. mál
[18:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil aftur þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir fyrirspurnina og láta í ljós þá skoðun mína að bók Atla Thoroddsens, sem hann minntist á og kom út í nóvember sl., hefur að geyma mikilvægar ábendingar um margt það sem betur má fara í þjónustu við einstaklinga sem eru með flókna sjúkdóma og jafnvel með fleiri en einn sjúkdóm.

Teymisvinna er mjög mikilvæg og hefur margsannað gildi sitt bæði við meðferð bráðra sjúkdóma og langvinnra. Þessi mál hafa verið til umfjöllunar innan heilbrigðisþjónustunnar á undanförnum árum og menn eru sammála um að samræma þurfi tengsl til að tryggja samfellu, bæði á milli sérgreina og fagstétta og á milli þjónustu heilsugæslu, sjálfstætt starfandi sérfræðinga og sjúkrahúsa.

Það hefur verið og er stefna Landspítalans og fleiri heilbrigðisstofnana að þjóna sjúklingum með teymisvinnu þegar við á, einkum sjúklingum með ýmsa langvinna sjúkdóma eins og ég nefndi. Hægt væri að telja upp fjölmörg verkefni sem byggja á teymisvinnu, þau skipta reyndar tugum á Landspítalanum, en ég vil aðeins nefna örfá.

Fyrst vil ég nefna gagngera endurskipulagningu á Landspítalanum á framkvæmd endurlífgunar við hjartastopp. Annað dæmi er að sérhæft teymi af ýmsum deildum spítalans tekur á móti mikið slösuðum sjúklingum. Gjörgæsluteymi fer út á ýmsar deildir spítalans sem liðsauki þegar sjúklingum versnar skyndilega. Barnasvið hefur mörg teymi á sínum vegum og sum þeirra vinna að úrlausn mjög sérhæfðra og langvinnra vandamála. Fleiri dæmi um teymisvinnu má nefna, svo sem þjónustu við nýrnasjúklinga, þjónustu taugadeildar og einnig á göngudeild sykursjúkra.

Ég vil taka undir það að meðferð sjúklinga með flókna sjúkdóma er sjaldnast á einni hendi. Hún byggist á teymisstarfi með þátttöku margra fagstétta. Þjónustan á að byggja á þörfum sjúklingsins og því er mikilvægt að halda áfram að efla teymisvinnu fagstétta og styrkja tengsl þeirra innan heilbrigðiskerfisins.

Eitt af því sem skiptir verulegu máli í þessu og er hluti af tvískiptri spurningu hv. þingmanns er einmitt mikilvægi rafrænna samskipta til að koma í veg fyrir endurtekningu og til að auka öryggi. Það er, eins og við nefndum í umræðunni áðan, grunnur að góðri og öruggri heilbrigðisþjónustu hvar sem er og hvenær sem er að menn geti haft aðgang að upplýsingum og þá ekki einungis læknar heldur líka meðferðaraðilar af ólíkum stigum, í heilsugæslu, á sjúkrahúsum og á stofum sjálfstætt starfandi sérfræðinga.

Frú forseti. Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvað líði vinnu innan heilbrigðiskerfisins sem miðar að því að einfalda umönnun sjúklinga með flókna sjúkdóma, þá tel ég að það þurfi að gera mun betur á því sviði. Það er verið að gera margt gott, sérstaklega á Landspítalanum, en það sem við þurfum að gera er að styrkja grunnþjónustuna í heilsugæslunni þannig að hver og einn sjúklingur hafi heilsugæslulækni sem hefur yfirsýn yfir viðkomandi sjúkling, styrkleika hans og veikleika í félagslegu umhverfi og fjölskyldu og geti fylgt sjúklingnum eftir svo lengi sem sjúklingurinn velur að hafa hann sem lækni. Til að þetta geti orðið að veruleika þarf að breyta skipulagi heilbrigðisþjónustunnar töluvert og einn liður í því er einmitt rafræn sjúkraskrá og aukin teymisvinna, sérstaklega aðkoma fleiri sérfræðinga í heilsugæslunni.