138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

hjúkrunarrými á Ísafirði.

[10:45]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Með hefðbundnum fyrirvörum um að þörfin sé rétt greind og auðvitað að rekstrarheimildir séu fyrir hendi, því að ekki viljum við byggja húsnæði sem stendur síðan tómt, við viljum auðvitað tryggja að hægt sé að reka það, er ekkert því til fyrirstöðu að byggingarframkvæmdir geti farið af stað á næsta ári. Við erum að taka úr sambandi þessa eilífu tafapólitík sem verið hefur í uppbyggingu á þessu sviði. Það er engin ástæða til þess að láta standa á verklegum framkvæmdum ef menn telja sig á annað borð hafa rekstrarheimildir fyrir hjúkrunarrýmum, enda er það lykilkostnaðurinn. Satt að segja er byggingarkostnaðurinn hverfandi í samanburði við rekstrarkostnaðinn. Það er því engin ástæða til þess að láta standa á byggingarkostnaði ef þörf er á annað borð fyrir hendi og peningar til að reka þjónustuna.