138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

úthlutun hjá Fjölskylduhjálpinni.

[11:02]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta mál undirstriki líka fyrir okkur mikilvægi þess að við horfum á það hvernig við veitum neyðaraðstoð. Reyndur maður úr þessum geira, með ámóta reynslu og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, sagði við mig nýlega að við mundum aldrei veita þróunaraðstoð landi sem hagaði aðstoð sinni við bágstadda með sama hætti og við gerum. Við þurfum aðeins að hugsa til þess. Í prinsippinu er algjör óþarfi að láta fólk standa í röðum til þess eins að niðurlægja það. Við eigum líka að reyna að hugsa þetta eftir öðrum leiðum og öðrum lausnum. Við eigum að gera þá kröfu til þeirra samtaka sem sinna þessari aðstoð að þau hafi samstarf sín á milli þannig að tryggt sé að aðstoðin nýtist sem best þeim sem á henni þurfa að halda og að lögð verði meiri vinna í að stilla saman strengi þannig að við komumst hjá því að búa til einhvern biðraðakúltúr og niðurlægja fólk að óþörfu.