138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

sanngirnisbætur.

494. mál
[11:30]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að þakka forsætisráðherra fyrir þetta frumvarp og reyndar hrósa hæstv. forsætisráðherra fyrir framlagningu þessa máls. Þetta er mikið plagg að vöxtum, 40 síður, og margt sem þar kemur fram.

Vitaskuld er það svo, eins og fram hefur komið hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, að peningar ná aldrei að bæta þann skaða sem unninn hefur verið á mörgum sem hér koma við sögu. En hér er þó kannski fyrst og síðast um táknrænan gjörning að ræða og afsökun sem loksins er komin fram og tók undarlega langan tíma að bera fram.

Ég vil nota tækifærið hér og geta hlutar fjölmiðla í þessu máli sem verið hefur mikilvægur að mínu viti og vil draga hér sérstaklega fram Kastljós, Kompás og DV sem hafa unnið mikið og gott starf við að afhjúpa og upplýsa þetta mál. Sá hlutur má ekki gleymast í umræðu um þetta efni. Þegar kemur að svona viðkvæmum málaflokki er vönduð fjölmiðlun mjög mikilvæg og afhjúpun í þessum efnum kallast á við það lagaumhverfi sem við búum við hvað varðar upplýsingaskyldu stjórnvalda. Hún þarf að vera mjög virk og leyndarhyggjunni þarf að linna þegar kemur að þessum málaflokkum því að velferð barna okkar, velferð unglinga okkar og velferð fólksins sem þarf á aðstoð að halda inni á heimilum hlýtur alltaf að vera æðri einhvers konar leyndarhjúp sem embættismannakerfið leggur yfir störf sín. Þakka þér, hæstv. forsætisráðherra.