138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

tæknifrjóvgun.

495. mál
[13:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég mun verða við þeim tilmælum sem hv. þingmaður beindi hér til mín varðandi upplýsingaöflun um fjölda fósturvísa í geymslu. Ég bendi þó á að þegar lögunum var breytt á árinu 2008 þegar lögfest var heimild til þess að nota umframfósturvísa til þess að búa til stofnfrumulínur sem nýst geta til afla þekkingar í líf- og læknisfræði eða til að bæta heilsu eða lækna sjúkdóma, eins og þar segir, hefur þessara upplýsinga væntanlega verið aflað, það var árið 2008.

Ég minni á að ákvörðun sem þarna var tekin um að breyta lögunum í 12. gr., var tekin að mjög yfirveguðu ráði og eftir nokkuð miklar umræður. Það eru mjög ákveðin skilyrði í lögunum um aðkomu vísindasiðanefndar um það hvernig ráðstafa má fósturvísum til stofnfrumurannsókna.