138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

skuldavandi ungs barnafólks.

[13:55]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þó að efnahagshrunið geri ekki mannamun kemur ekki á óvart að afleiðingarnar bitni harkalega á ungu fólki sem að jafnaði er skuldsettara en þeir sem eldri eru. Oftast nær skuldsetning hámarki um fertugt. Skuldirnar vaxa hratt á þeim tíma sem allt er undir hjá ungu fólki, það er að mennta sig, koma sér þaki yfir höfuðið og ala upp börn. Eðlilegt er að ungu fólki sé brugðið við þær hremmingar sem nú ganga yfir þar sem þessi kynslóð hefur blessunarlega verið laus við kreppur. Mikilvægt er að ungt fólk kynni sér vel þau úrræði sem bjóðast og gefist ekki upp fyrir fram.

Á síðasta ári voru flestir á aldrinum 25–30 ára sem fluttu frá landinu. Það er vissulega áhyggjuefni ef sú þróun heldur áfram þó að ungt fólk sé hreyfanlegra en það eldra og meiri líkur á að það snúi aftur heim. Rætur skuldavanda ungs fólk eru samspil stökkbreyttra lána, atvinnuleysis og því miður stundum offjárfestinga og vankunnáttu í fjármálum. Ég tel að lánastofnanir hafi oft og tíðum sýnt mikið ábyrgðarleysi og lítið siðferði í lánveitingum til ungs fólks. Á því þarf að verða bragarbót. Efla þarf fjármálafræðslu hjá ungu fólki, bæði hjá fjármálafyrirtækjum og í skólakerfinu. Mikilvægt er að ungu fólki bjóðist fjölbreytt búsetuúrræði því að oftar en ekki neyðist ungt fólk til að kaupa húsnæði þó að það hafi ekki efni á því.

Stjórnvöld eru að mæta erfiðleikum í skuldavanda ungs fólks en það má alltaf gera betur.