138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[14:03]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á hjúskaparlögum, lögum um staðfesta samvist og fleira og er það flutt í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að lögfest verði ein hjúskaparlög og þeirri brýnu réttarbót komið á að allir séu jafnir fyrir lögunum, hvort sem einstaklingar í hjúskap eru af gagnstæðu eða sama kyni.

Í frumvarpinu er nánar tiltekið lagt til að tveir einstaklingar, hvort sem er af gagnstæðu eða sama kyni, geti gengið í hjúskap. Frumvarpið er samið á vegum Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr að tilhlutan dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins. Ég þakka stofnuninni fyrir vandaða vinnu. Við samningu frumvarpsins var litið til þróunar réttinda samkynhneigðra á Íslandi. Þá var aflað upplýsinga um þróun löggjafar í öðrum löndum og þær leiðir sem farnar hafa verið til að heimila samkynhneigðum að stofna til hjúskapar. Einnig var tekið tillit til alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að. Er í greinargerð með frumvarpinu gerð ítarleg grein fyrir þessum atriðum og vísast til þess sem þar segir.

Virðulegi forseti. Hjúskapur er fyrst og fremst borgaraleg stofnun. Löggjöf um hjúskap skilgreinir þetta viðurkennda sambúðarform á hverjum tíma og markar hverjir megi ganga í hjúskap og hver hjónavígsluskilyrði skuli vera. Þá er það löggjafans að ákveða hvaða réttaráhrif fylgja stofnun hjúskapar. Löggjafinn hefur styrkt þetta sambúðarform umfram önnur með tilliti til þess að hjúskapurinn er ein af sterkustu grunnstoðum fjölskyldunnar í samfélaginu. Hjúskapurinn á sér djúpar rætur í löggjöf og menningu og segir í greinargerð að grunnstoðir hjónabandsins séu byggðar á hugmyndum um gagnkvæma ást, festu og varanleika.

Því ætti löggjafinn með þetta í huga að gera greinarmun á því hvort einstaklingar í hjúskap séu af gagnstæðu eða sama kyni? Þessi spurning verður einkum áleitin þegar litið er til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað undanfarin ár í réttindum samkynhneigðra.

Samkvæmt gildandi lögum geta tveir einstaklingar af sama kyni stofnað til staðfestrar samvistar. Staðfesting samvistar hefur með tilteknum undantekningum sömu réttaráhrif og stofnun hjúskapar og gilda ákvæði laga um hjúskap því almennt um staðfesta samvist. Sá mismunur sem enn er á þessum tveimur sambúðarformum var réttlættur á sínum tíma með því að staðfest samvist þyrfti að festa sig í sessi sem viðurkennt sambúðarform og því væri réttast að fara hægt í sakirnar. Virðulegi forseti. Það var árið 1996 og því má leiða rök að því að þau rök sem sett voru fram fyrir því að hafa mun á þessu tvennu, hjúskap og staðfestri samvist, séu orðin úrelt, nú sé tími kominn til að löggjafinn festi enn frekar hjúskapinn í sessi sem sterkustu grunnstoð fjölskyldunnar í samfélaginu og það séu í raun grundvallarréttindi að fá að ganga í hjúskap, sambúðarform sem löggjafinn veitir brautargengi með ýmsum hætti eins og áður hefur verið vikið að. Ekki verði lengur við lýði sú mismunun sem núgildandi löggjöf hefur í för með sér gagnvart samkynhneigðum þegar kemur að réttinum til að ganga í hjúskap.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á ýmsum öðrum lögum vegna þessara breytinga á hjúskaparlögunum og er gert ráð fyrir að lagður verði niður sá greinarmunur sem gerður hefur verið á annars vegar sambúð karls og konu og hins vegar sambúð einstaklinga af sama kyni, enda þykir slík aðgreining ekki þjóna tilgangi frumvarpsins heldur fara gegn markmiðum þess.

Að lokum er svo lagt til að lög um staðfesta samvist, nr. 87/1996, verði felld úr gildi. Hvað varðar það atriði sérstaklega eru í frumvarpinu tekin af öll tvímæli um gildi staðfestrar samvistar sem þegar hefur verið stofnað til. Hún haldi gildi sínu en þeir sem það kjósa geta fengið samvist sína viðurkennda sem hjúskap. Það getur annaðhvort verið með þeim hætti að sameiginleg yfirlýsing verði send til þjóðskrár eða stofnað verði til hjúskapar fyrir presti, forstöðumanni skráðs trúfélags sem hefur vígsluheimild eða borgaralegum vígslumanni í samræmi við ákvæði hjúskaparlaga. Skal tekið fram í þessu sambandi að gert er ráð fyrir því að vígslumanni sé heimilt að synja um hjónavígsluna líkt og gildir nú um staðfesta samvist. Þar sem ekki er víst að allir þeir sem nú eru í staðfestri samvist óski eftir að skráningu á sambúðarformi þeirra sé breytt í hjúskap er í frumvarpinu kveðið á um að staðfest samvist hafi sömu réttaráhrif og hjúskapur og að ákvæði laga sem varða hjúskap og maka gildi um staðfesta samvist og einstaklinga í staðfestri samvist. Er nauðsynlegt að taka þetta fram þar sem núgildandi lög um staðfesta samvist verða felld úr gildi við gildistöku frumvarps þessa verði það samþykkt.

Þá er í 5. gr. frumvarpsins áfram gert ráð fyrir að einstaklingar í staðfestri samvist geti fengið meðferð og úrlausn mála sem varða samvistina fyrir dómstólum og stjórnvöldum hér á landi án tillits til atriða eins og búsetu og ríkisfangs. Þrátt fyrir þá þróun sem hefur orðið eru rökin að baki rýmri lögsögu dómstóla og stjórnvalda hér á landi í þessum málum þau sömu og við setningu laganna um staðfesta samvist, þ.e. að samkynhneigðum geti reynst ómögulegt að fá úrlausn mála annars staðar en hér á landi. Samsvarandi er einnig áréttað í ákvæði norsku hjúskaparlaganna sem á við um staðfesta samvist.

Virðulegi forseti. Ég vona sannarlega að mál þetta fái vandaða umfjöllun og ekki síður almenna umfjöllun. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og allsherjarnefndar.