138. löggjafarþing — 101. fundur,  25. mars 2010.

lögskráning sjómanna.

244. mál
[18:07]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um lögskráningu sjómanna. Eins og fram hefur komið eru viðamestu breytingarnar sem lagðar eru til þær að lögskráningarskyldan nái til allra skipa sem eru gerð út í atvinnuskyni, óháð stærð og að framkvæmd hennar verði rafræn. Þó verður áfram boðið upp á þann möguleika að lögskrá með sama fyrirkomulagi og áður sem fram að þessu hefur verið hjá sýslumönnum eða tollvörðum.

Þær umsagnir sem samgöngunefnd hafa borist um frumvarpið hafa flestar verið jákvæðar, utan umsögn Landssambands smábátaeigenda, sem er andvígt frumvarpinu og telur ekki þörf á að lögskrá áhafnir niður í einmenningssjósókn. Sambandið telur að það fyrirkomulag sem er hjá þeim í dag í slysa- og líftryggingarmálum sé í góðu lagi. Einnig hefur Landssamband smábátaeigenda rætt um aukinn kostnað sem fylgir þessum lögum.

Vil ég vitna hér í fylgiskjal með frumvarpinu, með leyfi forseta, þar sem gerð er grein fyrir kostnaðargreiningu frá fjármálaráðuneytinu. Þar er gert ráð fyrir að gjald fyrir aðgang að rafrænni skráningu verði 2.000–4.000 kr. á hvert skip. Verið er að tala um að þúsund skip til viðbótar verði skráningarskyld.

Komið hefur fram hjá öðrum umsagnaraðilum að mikilvægt sé að frumvarpið verði að lögum sem fyrst, það snerti réttarbætur og öryggissjónamið fyrir sjómenn. Í 5. gr. frumvarpsins er fjallað um framkvæmd lögskráningar þar sem m.a. er mælt fyrir um að fyrir þurfi að liggja gögn eða upplýsingar áður en til lögskráningar kemur. Vil ég sérstaklega undirstrika að þar er verið að tala um að skipverjar þurfi að hafa fengið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna eða á annan hátt og einnig að yfirlýsing frá viðkomandi tryggingafélagi um líf- og slysatryggingu skipverja sé til staðar. Skal skráningaraðili ganga úr skugga um að tryggingarnar séu í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga. Ef útgerðarmaður vanrækir að hafa líf- og slysatryggingu í gildi er hann þó ábyrgur fyrir viðkomandi bótagreiðslum og reynist útgerðarmaður eigi fær um greiðslu slíkra bóta ber ríkissjóður fulla ábyrgð á greiðslu þeirri.

Ég hef lengi talið rétt að sjómenn séu lögskráðir á öllum stærðum skipa sem gerð eru út í atvinnuskyni. Ég fagna því vissulega þessu frumvarpi og tel það vera mikla réttarbót og öryggismál fyrir sjómenn.

Ég get alveg tekið undir með Ásbirni Óttarssyni að við þurfum að skoða milli 2. og 3. umr. varðandi björgunarbúninga í bátum minni en 12 metra, það er vissulega umhugsunarefni að þau mál séu ekki með þeim hætti að fyllsta öryggis sé gætt. Ég tel rétt að við skoðum þau mál milli 2. og 3. umr. og líka það sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hefur komið hér inn á.