138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Reyndar hnaut ég um eitt sem hún sagði, sem mér þótti slæmt, hvort ég sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins vildi ræða eitthvað. Ég tala hérna sem ég sjálfur. Ég er ekkert að skuldbinda einn flokk eða neitt slíkt. Ég hef nefnilega margoft varað við flokksræðinu, einmitt því hef ég varað við. Flokksræði þar sem einhverjir örfáir ákveða og hjörðin, sauðirnir, fylgja. Það eru of fáir „kettir“, svo maður taki þá líkingu. Þetta er stórhættulegt. Þá getur það gerst að eitthvað er samþykkt á Alþingi þó að í reynd sé stór meiri hluti á móti því. Ég minni aftur á umsóknina um Evrópusambandið og samþykkt Icesave-samningsins, þar björguðu reyndar nokkrir hugrakkir kettir því að þjóðin sæti uppi með Icesave núna — og hér gengur einn fram hjá.

Ég tel mjög brýnt að Alþingi taki til sín samningu laga. Ég er margbúinn að benda á það að þegar sérfræðingarnir úti í bæ, meira að segja aðilarnir sem framkvæma lögin, Samkeppnisstofnun og skatteftirlitið, eru að semja lög til að smíða vopn í hendurnar á sér er slíkt stórhættulegt. Alþingismenn eiga að semja lögin. Við erum núna eiginlega í einhvers konar endurskoðunarhlutverki, að kíkja á hvernig lögin virka, en hugmyndafræðin er úti í bæ. Þar eru lögin samin og við þurfum að rökstyðja allar breytingar sem við gerum á lagafrumvörpum en þeir ekki sem sömdu þau. Þess vegna verðum við að taka löggjafarvaldið til okkar inn í Alþingi, við erum með fjárveitingavaldið. Við getum ráðið þetta sama fólk hingað sem vinnur þá í okkar þágu en ekki í þágu þeirra sem framkvæma lögin. Ég tel að þetta væri mjög brýn breyting og ég skora á hv. þingmann, sem þingmann, að vinna með mér að því.