138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú kynni einhver að halda þar sem ég og hv. þingmaður erum bæði í stjórnarandstöðu að það sé eitthvert stjórnarandstöðumein að vilja semja lög. En þá vil ég benda á að þegar ég studdi ríkisstjórn, þau 18 ár sem Sjálfstæðisflokkurinn var þar og af þeim var ég í 14, var ég með sömu ræðuna og ég held núna, þannig að það hefur ekki breyst. Ég sá nefnilega sömu veiluna þegar ég var í stjórnarliði og ég sé núna sem stjórnarandstæðingur.

Við eigum að semja lög. Nefndirnar eiga að fá tilefni eða beiðni frá einstaklingum, fyrirtækjum, samtökum og ráðuneytum um að flytja breytingartillögur eða breyta lögum í þessa og þessa veruna. Síðan eiga nefndirnar að taka ákvörðun um hvort þær vilji semja um þetta frumvarp. Þegar nefnd hefur samið frumvarpið fer það til Alþingis í umræðu og er síðan sent til ráðuneyta og annarra til umsagnar hvernig gengur að framkvæma þetta. Núna er þetta öfugt, hv. þingmenn eru í nefndunum að kanna hvernig gengur að framkvæma lögin. Þeir eru ekki framkvæmdarvaldið, þeir eiga að semja lögin sem síðan á að senda til umsagnar til ráðuneyta og stofnana, eins og gert er í dag. Reyndar eru þau ekki send til ráðuneyta því að ráðuneytin semja frumvörpin sjálf og spyrja hvernig gengur að framkvæma þetta. Þá kæmi gagnrýni á það, að þetta sé ekki hægt að framkvæma svona eða að einhver segir, þetta brýtur stjórnarskrá o.s.frv. (Gripið fram í: Lagaskrifstofa?) Til dæmis lagaskrifstofa eða eitthvað slíkt, það er ekki spurning um nafn heldur bara spurning um framkvæmd. Svona sé ég þetta fyrir mér, að Alþingi færi virkilega að semja þau lög sem hér eru afgreidd þannig að þetta yrði alvörulagasetning, alvörulöggjafi en ekki einhver endurskoðunarstimplun á lögum sem samin eru í ráðuneytum og stofnunum sem eiga að framkvæma lögin.