138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

störf sérstaks saksóknara og flutningur lögheimila.

[11:09]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi bendir á að vegna þess sem kemur fram í rannsóknarskýrslunni muni almenningur horfa mjög til sérstaks saksóknara. Ég vil eiginlega líka segja að það er ekki síður horft til Alþingis og viðbragða þess, en vissulega er rétt að það er sérstakur saksóknari sem þarf að fara í gegnum rannsóknarskýrsluna og huga að þeim málum sem þar koma fram og taka þau til viðeigandi meðferðar.

Ég þakka þessa fyrirspurn er lýtur að flutningi lögheimila og slíks því að það er auðvitað svo að menn geta ekki forðast hinn langa arm laganna með því að flytja lögheimili. Til þess er nú alþjóðleg lögreglusamvinna og réttarsamvinna og ef einhverjum dettur í hug að flýja refsivörslukerfið með því að flytja erum við sem betur fer þátttakendur í slíku kerfi. En ég vil benda á í því sambandi að það er mönnum auðvitað frjálst og þeir eiga auðvitað að sjá sóma sinn í því ef þeir eru til kvaddir að gefa skýrslu eða koma til yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara að koma þangað sjálfir, það á ekki að þurfa sérstaka réttarbeiðni með tilheyrandi handtökum eða formlegheitum í því sambandi. Ég vil í rauninni koma því á framfæri að ekki er hægt að flýja refsingu með því að flytja lögheimili þótt vissulega sé hægt að gera eftirlitsaðilum lífið aðeins erfiðara með því móti.

Rannsóknarskýrslan og það sem hefur komið þar fram kallar á aukin verkefni hjá sérstökum saksóknara, ég held að það hljóti að liggja fyrir. Þess vegna hefur það verið rætt í ríkisstjórn og ég hef borið það þar á borð að væntanlega þurfi auknar fjárheimildir og aukinn mannskap og væntanlega mun endanleg greining á því liggja fyrir innan kannski næstu tveggja vikna.