138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[11:51]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra tæpti á mörgum mjög áhugaverðum hlutum í þessari yfirgripsmiklu og góðu skýrslu. Ég hef áhuga á því að spyrja hæstv. ráðherra aðeins nánar út í stjórnsýsluþáttinn og viðhorf hans til þess þáttar. Alveg ljóst er að skýrslan dregur upp mynd af helsjúku samfélagi, helsjúku fjármálakerfi og stjórnmálum sem eru helsjúk. Við Íslendingar sáum þetta auðvitað margir á þessum tíma. Ég var pistlahöfundur á þessum árum upp úr aldamótum og oft reif maður hár sitt og skegg út af alls konar vitleysisgangi í stjórnmálunum. Það sáu það allir að ákvarðanir voru teknar bara einhvern veginn, einhvers staðar af einhverjum, flokksformönnum stjórnarflokkanna væntanlega og yfirleitt og iðulega. Menn sáu hvernig var farið í þjóðnýtingu Glitnis á sínum tíma. Það er staðfest í skýrslunni að það var náttúrlega alveg ótrúleg atburðarás.

Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, vegna þess að við verðum að horfa til framtíðar og nú er hann í þessari stöðu, hann er flokksformaður og leiðir annan flokkinn í ríkisstjórn: Hæstv. fjármálaráðherra, hafið þið flokksformennirnir í ríkisstjórninni farið yfir það hvernig verklag ykkar á að vera? Eru oft haldnir fundir inni í stofu ykkar flokksformannanna þar sem þið takið ákvarðanir sem síðan á einhvern veginn að keyra í gegnum þessa stofnun eða í gegnum ríkisstjórn?

Mig langar aðeins til að heyra hvernig hæstv. fjármálaráðherra lítur á þetta verklag, vegna þess að það er líka mjög alvarlegt að í skýrslunni er viðurkennt og rakið hvernig ákvarðanir voru oft teknar heima í stofu af flokksformönnunum, en það er ekki opinber formlegur vettvangur og ekki vettvangur fyrir fundargerðir, (Forseti hringir.) svo dæmi sé tekið. Þannig að það eru ekki rekjanlegar ákvarðanir. (Forseti hringir.) Mig langar til að heyra viðhorf hæstv. (Forseti hringir.) fjármálaráðherra til þess þáttar.