138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:05]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna hinum nýja tón sem virðist koma frá hæstv. fjármálaráðherra. Hann hefur verið duglegur og vasast í mörgu. Ég set hins vegar spurningarmerki við það að hann einn skuli vera að vasast í hlutum sem eru á borðum annarra ráðherra. Mér finnst verkstjórnin hálfdapurleg, ef ég á að segja alveg eins og er.

Það sem mig langaði að ræða hér er flokksræðið. Ég held að það blasi við í þessari rannsóknarskýrslu að það einræði sem Halldór og Davíð höfðu, sem og Geir og Ingibjörg, var slæmt. Það er hluti af hinum stóra vanda. Nú erum við með tvo ráðherra, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon, sem í rauninni hafa tekið að sér sama hlutverk. Ég verð að segja fyrir mína parta að enn á ný, og allt síðasta þing, höfum við horft upp á sama flokksræðið og margir börðust svo hart gegn áður. Það endurspeglaðist kannski helst í Icesave-málinu, leyndin, undanskot gagna, blekkingarnar og það að einstakir þingmenn voru sveigðir og beygðir til að gefa frá sér eigin sannfæringu.

Nú spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Er hann reiðubúinn sem hluti af framkvæmdarvaldinu að gefa eftir það yfirgnæfandi óhóflega vald sem framkvæmdarvaldið hefur yfir Alþingi? Hann ræddi eftirlitshlutverkið og benti á að því væri ábótavant. Er því ekki ábótavant vegna þess að ráðherrar hafa tekið sér allt það vald sem Alþingi á að hafa? Hefur eitthvað breyst með nýrri ríkisstjórn? Það hefur ekkert breyst í mínum huga. (Forseti hringir.) Þess vegna bið ég hæstv. fjármálaráðherra að svara þessari spurningu.