138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[12:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ræddi í gær nokkuð um notkun skýrslunnar. Við eigum að nota hana til að kæra lögbrot til dómstóla og það þarf að gerast hratt. Menn þurfa að fá réttláta málsmeðferð og mér finnst bera á því, bæði í þingsölum og líka á fréttamannafundum, að menn séu búnir að dæma og að þeir sem eru ásakaðir eða kærðir með þeim hætti fái ekki að verja sig eins og vera ber.

Síðan eru önnur mistök sem ekki byggja á lögbrotum. Þar finnst mér að menn eigi að geta varið sig. Ef þeir geta ekki varið sig með skynsamlegum rökum þurfa þeir að biðjast afsökunar á því sem þeir gerðu. Það voru fjöldamörg mistök gerð, fjöldamörg. Við þurfum svo að læra og laga allt umhverfi atvinnulífsins með þessa skýrslu að vopni, en hún er afskaplega verðmæt. Síðast en ekki síst þurfum við að gefa erlendum aðilum tækifæri til að læra af þessari skýrslu líka. Ég hygg að sá lærdómur sé þegar hafinn vegna þess að sú alda, sú dökka, dimma alda, sem brotnaði á Íslandi er undiralda sem gengur um allan heim. Þetta er ekki bara íslenskt vandamál. Síðast en ekki síst, herra forseti, þurfum við að nota skýrsluna til að læra og skapa nýja framtíðarsýn og ég kem inn á það á eftir.

Það sem vantar inn í skýrsluna, þegar við tölum um ábyrgð og siðferði — eins og ég gat um í gær gáfu matsfyrirtæki íslensku bönkunum einkunnina AAA rétt áður en þeir fóru á hausinn, um það bil 15 mánuðum áður en þeir fóru á hausinn. Þeir bera mikla ábyrgð. Það er ekki nefnt í skýrslunni því miður. Þeir voru heldur ekki nefndir, eins og ég nefndi í gær, kjánarnir sem lánuðu kjánunum 12 þúsund milljarða. Það er tvöfalt meira og rúmlega það en allar eignir á Íslandi eins og þær leggja sig, virkjanir, vegir, skólar, íbúðarhúsnæði o.s.frv., bílar og allt. Þetta er tvöfalt meira. Hvað var fólkið að hugsa sem lánaði alla þessa peninga? Hvar er ábyrgð þeirra? Síðan þurfum við að finna til ábyrgðar, það vantar ekki, það eru stjórnendur og stærstu hluthafar bankanna sem bera mikla ábyrgð og það er sagt í skýrslunni og það er fínt. Síðan er það löggjafinn, framkvæmdarvaldið og dómsvaldið.

Ég fjallaði um löggjafarvaldið í gær og sérstaklega ákveðna grein sem fór í gegn á Alþingi nánast eins og Alþingi væri meðvitundarlaust. Það var engin umræða um þá breytingu sem gerð var að kröfu EFTA og sennilega var það þess vegna sem engin umræða var um hana. Hún fólst í því að hlutafélag megi lána starfsmanni til kaupa á hlutabréfum og ekki bara lán til hans sjálfs heldur tengdum aðilum, þ.e. hann gat stofnað hlutafélag um kaupin þannig að hann gat bara grætt en ekki tapað nema sem nam hlutafénu sem er að lágmarki hálf milljón. Þetta er alveg stórhættulegt og ég nefndi þetta.

Það sem við þurfum að gera núna, og ég nefndi það í gær líka, snýr að hugtökunum haghafi og hluthafi. Þegar menn taka ákvörðun, hvort sem það er á Alþingi, í sveitarstjórnum, í hlutafélögum eða út um allt, eru þeir að hafa áhrif á fjölda aðila, einstaklinga og annarra, sem ekki koma að ákvörðuninni sem hluthafar heldur sem haghafar, „stakeholders“ á ensku. Þeir líða fyrir þessa ákvörðun eða hagnast á henni og við þurfum að gæta þeirra í öllum ákvörðunum, líka í stjórnum hlutafélaga.

En það sem ég vildi að við notuðum skýrsluna í — og ég ætla að ljúka með því — er að móta framtíðarsýn. Framtíðarsýn mín er sú að almenningur á Íslandi hætti að skulda nema í íbúðarhúsnæði. Hann kaupir bílinn með staðgreiðslu, hann kaupir utanlandsferðir með staðgreiðslu, hann kaupir símann með staðgreiðslu. Ég sé einnig fyrir mér að fyrirtæki verði rekin mikið meira með áhættufé en ekki lánsfé, það minnkar áhættuna. Ég sé líka fyrir mér að sveitarfélögum verði hreinlega bannað að mynda skuldir og að ríkissjóður sé rekinn með afgangi. Þá fer íslenska þjóðin úr því að vera endalaus skuldari, frá því að ég man eftir mér, í það að eiga innstæður í útlöndum. Það er nefnilega þannig að meðalskuldir allra þjóða í heiminum eru núll þannig að nokkurn veginn helmingur þjóða á innstæður erlendis og hinn helmingurinn skuldar og borgar endalaust vexti og tekur áhættu. Þeir sem skulda eru ekki sjálfstæðir, þeir sofa ekki rótt á nóttunni og þeim líður illa en eiga í staðinn flottan grænan jeppa.