138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að lengja þessa umræðu um rannsóknarskýrsluna en af því að nokkrir hv. þingmenn hafa nefnt núverandi fyrirkomulag á eignarhaldi nýju endurreistu bankanna er sjálfsagt að fara yfir það mál. Það er mikill misskilningur að það sé á nokkurn hátt sambærilegt við einkavæðingu ríkisviðskiptabankanna á sínum tíma 2002 og þær aðferðir sem þar voru viðhafðar. Hið rétta í þessu máli er að viðskiptabankarnir voru aldrei nema að mjög takmörkuðu leyti í eigu ríkisins. Arion banki og Íslandsbanki, sem nú eru að uppistöðu til í eigu innlendra eignarhaldsfélaga sem aftur eru í eigu skilanefnda viðkomandi eldri banka, fengu eigið fé sitt frá skilanefndunum eftir flóknar samningaviðræður um uppgjör á milli gömlu og nýju bankanna. Eina féð sem ríkið lagði þeim til var upphafshlutaféð sem var um 700 millj. kr. til hvers banka og á grunni þess stendur eftir lítill eignarhlutur ríkisins í þeim tveimur bönkum sem skilanefndirnar völdu að eiga. Þegar kom að fjármögnuninni þá kom það fé frá skilanefndunum og aðeins var um tímabundna forfjármögnun bankanna frá ríkinu að ræða á pappírunum, sem gekk strax til baka á grundvelli samninganna. Bankarnir störfuðu á grundvelli undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu og þannig var komist að þessari niðurstöðu.

Eignarhaldið er mjög skýrt. Það eru íslensk eignarhaldsfélög sem aftur eru í eigu skilanefnda viðkomandi banka. Á bak við skilanefndirnar eru að sjálfsögðu kröfuhafar í bú gömlu bankanna. Það liggur nú fyrir hverjir það eru og er að verða endanlega skýrt því að kröfulýsingarlistar hafa verið meðhöndlaðir og kröfur teknar til greina. Stórir erlendir bankar, erlendir fjárfestingarbankar og sjóðir og innlendir aðilar svo sem lífeyrissjóðir og innlendir fjárfestar eru að uppistöðu til kröfuhafar í búin. Á bak við þann 19% eignarhlut í Landsbankanum sem er í eigu eignarhaldsfélags sem aftur er í eigu skilanefndar Landsbankans standa kröfuhafar í gamla Landsbankann. Hverjir skyldu fyrirferðamestu kröfuhafarnir, sem fá eitthvað upp í sínar kröfur, vera? Það verða væntanlega íslenska, hollenska og breska ríkið. Þannig að að þessu leyti til liggur þetta mjög skýrt fyrir og tal um að þarna sé eitthvað ófrágengið eða lausir endar er á misskilningi byggt.

Það er rétt að minna á það að Fjármálaeftirlitið hefur tekið þetta fyrirkomulag algerlega út og tók sér drjúgan tíma í það og vandaði til verka. Það er ekki fyrr en það hefur metið þetta fyrirkomulag fullnægjandi, að eigendurnir séu sem sagt „fit and proper“, hæfir aðilar til að fara með eignarhald í banka, sem gefið er grænt ljós á fyrirkomulagið. Þetta er að sjálfsögðu væntanlega tímabundið ástand.

Þessar eignir búanna verða væntanlega seldar með einhverjum hætti á komandi árum eða því gerum við ráð fyrir, en þá fer um það að íslenskum lögum. Á hverjum tíma þurfa eigendurnir að uppfylla íslensk lög um eignarhald á bönkum. Þau lög stendur nú til að og er að hluta til þegar búið að herða. Hv. þingmenn mega ekki tala hér eins og þeir séu ekki meðvitaðir um að fyrir þinginu liggur frumvarp um fjármálafyrirtæki sem tekur á þessum málum í veigamiklum atriðum, setur eignarhaldi á bönkum nýjar skorður, kemur í veg fyrir það krosseignarhald sem áður viðgekkst, bannar bönkunum að lána til eigenda sinna eins og gert var hér áður og fjöldamargt þar fram eftir götunum. Þannig að það er svo sannarlega verið að taka á því og reyna að tryggja að mistökin, hverra spor hræða og skýrslan fjallar um, endurtaki sig ekki.

Ég verð svo að leyfa mér að minna hv. þingmenn, sem eru að reyna að gera þetta tortryggilegt sem mér finnst vera fátækleg málsvörn gagnvart hinu liðna, á að þetta sparaði íslenska ríkissjóðnum um 200–250 milljarða kr. í útlögðu fé, í bundnu fé í bankakerfinu og tilheyrandi vaxtakostnað á hverju einasta ári. Það kemur mér spánskt fyrir sjónir ef Sjálfstæðisflokkurinn hefur skipt svo algjörlega um skoðun að hann sé á móti þessari ráðstöfun, því talsmenn Sjálfstæðisflokksins fögnuðu þessu hér, mæltu með þessu hér. Samtök atvinnulífsins og fleiri aðilar úti í samfélaginu töldu þetta góða niðurstöðu. Gleymum ekki að þessu fylgdi að það tókst að ná samkomulagi við kröfuhafana. Við náum þarna tengingu við erlenda banka á fjármálamarkaði í stað þess að eiga í ágreiningi við þá og taka áhættu af málaferlum við þá. Þannig að með þessari lausn vannst margt í einu. Við spöruðum ríkissjóði stórfellda fjármuni og mikinn vaxtakostnað, við náðum samkomulagi um uppgjör á milli gömlu og nýju bankanna og við náðum betri friði við kröfuhafasamfélagið. Ég held þetta sé vænlegri framtíð fyrir bankana sjálfa og íslenskan fjármálamarkað. Ætli það sé ekki alveg nóg fyrir íslenska ríkið að vera yfirgnæfandi meirihlutaeigandi stærsta bankans, Landsbankans, sem er með um helming af markaðnum og stefna í að verða stór eigandi (Forseti hringir.) að sparisjóðakerfinu í landinu.