138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[16:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég treysti því að hv. þingmaður sé sáttur við og ánægður með að sú leið hafi verið valin að setja sérlög um þessa framkvæmd til að taka af allan vafa um að rækilega sé um málið búið. Ég fór yfir það í framsöguræðu minni að í sjálfu sér væri ekki sjálfgefið að svo væri en um þetta hefur verið svolítið rætt á þingi á liðnum árum og hið fræga tónlistarhús kannski borið þar hæst, en það fór af stað á öðrum forsendum en hér er lagt upp með. Hér er þetta í gadda slegið, eins og hæstv. utanríkisráðherra mundi kannski segja, frá fyrsta degi og traustur lagagrunnur lagður undir verkefnið á meðan það er enn á hreinu undirbúningsstigi.

Samþykktir félagsins verða væntanlega mjög hefðbundnar samþykktir félags sem er með skýran tilgang og skýr markmið í lögum en ef sú vinna er af stað komin eða einhver drög eða tillögur liggja fyrir um slíkt sem ég þekki ekki þá er sjálfsagt mál að upplýsa hv. nefnd um það eða koma til hennar gögnum.

Varðandi heitið á þessu, þegar talað er um samstarfsframkvæmdarverkefni þá er þetta samstarf frá byrjun. Lífeyrissjóðirnir koma að strax á undirbúningsstigi málsins og eru í sigti sem fjármögnunaraðilar. Þeir lýsa vilja sínum til að koma að verkefninu og gera tilboð í fjármögnun þess en auðvitað verður leitað tilboða til að alls sé gætt, þannig að ekki er sjálfgefið að lífeyrissjóðirnir verði fjármögnunaraðilarnir en þeir eru samstarfsaðilar að þessu verkefni alveg frá byrjun. Þetta er opinber framkvæmd í þeim skilningi að útgangspunkturinn er að hið opinbera eignast mannvirkin að samningstímanum liðnum, þannig að hér er um tiltölulega sérstakt og afmarkað framkvæmdaform að ræða, þar sem fjármögnunaraðili er til staðar sem lýsir sig frá byrjun reiðubúinn (Forseti hringir.) til þess að vera með í verkefninu.