138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[16:55]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir þetta með hæstv. fjármálaráðherra en ég hefði kannski viljað endurtaka eða umorða spurningu mína: Er fullnægjandi að sú setning sé lögð á borð fyrir okkur þingmenn að niðurstöður ráðgjafarfyrirtækisins séu þær að það sé miklu dýrara að gera ekkert en að ráðast í framkvæmdir? Getur það virkilega verið? Er þetta sú vandaða stjórnsýsla sem við höfum heitið þjóðinni að fara út í?

Jafnframt langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geri sér grein fyrir því að ríkissjóður sé með þessari gjörð á nákvæmlega sömu leið og Álftaneshreppur var á, þar sem skatttekjum var ráðstafað á þann hátt að smám saman varð ekki svigrúm fyrir neitt annað?