138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

störf þingsins.

[12:17]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Mig langar til að ræða aðeins þann merkisatburð að hv. fyrrverandi þm. Björgvin G. Sigurðsson hefur sagt af sér þingmennsku. Það er vel skýrt í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hver aðkoma ráðherra eða afskiptaleysi þeirra var af hruninu, hvort sem var í aðdraganda þess eða eftirmála. Það er ljóst að þar bera allir ráðherrar ábyrgð þótt mismikil sé.

Það er líka ljóst að í tilviki Björgvins G. Sigurðssonar brást stjórnsýslan í að upplýsa hann og sumir samráðherrar hans í hans eigin flokki brugðust líka og hvorki upplýstu hann né aðstoðuðu á einni mestu ögurstund sem nokkur ráðherra hefur lent í. Sá gamalkunni frasi að menn hafi lent í hinu og þessu er í þessu tilviki að hluta til réttur og það ber að hafa í huga.

Það er augljóst af lestri skýrslunnar að tengsl margra annarra núverandi þingmanna og ráðherra við hrunið eru mikil og með þeim hætti að ámælisvert getur talist þótt lagaleg og formleg ábyrgð þeirra sé ef til vill ekki fyrir hendi nema í fáum tilvikum. Þessi tengsl sem og aðgerðaleysi allra ráðherra fyrri ríkisstjórnar á einni mestu ögurstund lýðveldisins gera það nauðsynlegt að þeir endurmeti einnig stöðu sína á Alþingi, ekki vegna lagalegrar eða formlegrar vanrækslu í starfi heldur vegna framtíðar Alþingis sjálfs og íslenskra stjórnmála sem trúverðugs vettvangs. Það er fyllilega réttmæt krafa að þeir sem á þingi sitja og tengjast hruninu axli ábyrgð með raunverulegum og sjáanlegum hætti en ekki með orðskrúði og froðu og víki til hliðar þótt ekki væri nema til næstu kosninga þar sem kjósendur geta nú lagt raunverulegt mat á störf þeirra.

Afsögn Björgvins G. Sigurðssonar er eftirbreytniverð. Hann er maður að meiri fyrir vikið og á hrós skilið frá almenningi og þakkir skildar frá þinginu því að það eru svona ákvarðanir sem munu gera meira en nokkuð annað til þess að efla traust þjóðarinnar á Alþingi og á stjórnmálum. Megi honum vegna vel í því sem hann tekur sér fyrir hendur hvort sem það verður endurkoma í stjórnmál eða annað.