störf þingsins.
Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir svar sitt. Ég er ekki sammála því að þetta sé ekki í verkahring Alþingis. Alþingi setur lagaramma og annað slíkt utan um slíkar aðgerðir og vel má vera að það þurfi að breyta töluvert mikið lögum til að mæta þeim ósköpum sem vonandi verða ekki en hugsanlega gætu orðið og fornar sögur segja frá, þannig að ég skora á hv. varaformann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að gera það sem í hennar verkahring er til að kynna sér málin.
Varðandi það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði þá þakka ég honum fyrir það en er ekki sammála honum um að stjórnir lífeyrissjóða séu lýðræðislega kjörnar. Það er ekki þannig. Þetta er mjög formfast og stjórnir lífeyrissjóða breytast helst aldrei og hafa ekki breyst nú eftir hrunið. Menn hafa ekki axlað ábyrgð á því. Þó að hv. þingmaður sem er í stjórn lífeyrissjóðsins viti það ekki þá get ég upplýst hann um það að ávöxtun sl. árs var 25,3% í mínus. Einn fjórði af eignunum hvarf í stað þess að sjóðurinn sýndi þá 3,5% ávöxtun sem þarf til að halda honum á floti. Þó að hv. þingmaður viti það ekki þá get ég upplýst hann um það að ógreiddar skuldbindingar vegna B-deildar eru 430 milljarðar, það er tvöfalt Icesave. Það er óbreytt og það er verið að borga þarna út mjög háan lífeyri sem ekki er skertur.
Varðandi það að Lífeyrissjóður verslunarmanna hafi bætt sín réttindi þá er það rétt en margir aðrir sjóðir hafa ekki bætt réttindi sín og þurfa samt að skerða þau eftir hrunið þannig að staðan er mjög slæm. Ég höfða til ábyrgðar þeirra sem sitja í stjórnum þessara sjóða og minni á það að hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur bæði verið varaformaður og formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna, ég veit ekki hve lengi.