138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

lögreglulög.

586. mál
[14:09]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langaði bara að hrósa hæstv. dómsmálaráðherra fyrir viðhorf ráðherrans til þingstarfanna vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt að nálgast verkefnin á þeim nótum að leggi menn fram tillögu, sem er þannig að hún þolir ekki umræðuna, verði henni einfaldlega breytt í þinglegri meðferð. Þetta er til eftirbreytni og kannski grunnurinn að ástæðunni fyrir því að hæstv. dómsmálaráðherra er vinsælasti ráðherra landsins og kannski erum við búin að finna svarið við því akkúrat hér.

Ég get ekki látið hjá líða í þessari umræðu að vekja aðeins athygli á málefnum kjördæmis míns, sem er Suðurkjördæmi, og áhyggjum heimamanna bæði í Vestmannaeyjum og á Hornafirði af þessum fyrirhuguðu breytingum. Stundum hefur verið talað um Hornafjörð sem eyju vegna þess að samgöngur þangað eru stundum erfiðar. Vestmannaeyjar eru að sjálfsögðu eyjar og þrátt fyrir að menn séu þar að ná ágætissamgöngubót núna með tilkomu Landeyjahafnar eru þeir eðlilega tiltölulega afskiptir og það væri að sjálfsögðu erfitt að ímynda sér að öll lögreglustjórn færi fram ofan af landi út til Eyja. Þetta eru sjónarmið sem ég veit að hæstv. ráðherra er fullkunnugt um og sem ég vonast til að tekið verði mið af í þeirri vinnu sem fram undan er og hlustað á sjónarmið heimamanna. Ástæðan fyrir því að ég vakti athygli á að rétt væri að leggja spilin á borðið varðandi sýslumannsembættin við þessa meðferð frumvarpsins er einfaldlega sú að ég veit að heimamenn á hverjum stað eru að hugsa um þetta. Þeir vilja fá að gera sér grein fyrir heildarmyndinni, hvað þeir eru að missa, hvort þeir séu að missa bæði lögreglustjórnina og sýslumannsembættið frá sér. Þessar spurningar koma fram umræðunni. Þær eru erfiðastar fyrir okkur pólitíkusana að takast á við og mönnum finnst einfaldlega best að takast á við þetta allt í einum pakka.