gjaldþrotaskipti o.fl.
Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Sú spurning kemur einfaldlega upp hvort skuldarinn eða lántakinn, eins og þeir einstaklingar sem hafa tekið lán vilja láta kalla sig og við eigum að temja okkur að tala um, hvort þetta sé verkefni sem gæti ratað inn á borð umboðsmanns skuldara, sem jafnframt er í umræðunni að breytist í umboðsmann lántakenda, og hvort það hafi eitthvað komið fram í umræðunni þegar var verið að smíða þessar reglur að þetta væri verkefni sem hægt væri að setja í einhvers konar sáttaferli þar innan dyra ef fer að reyna á það að menn séu ekki sammála um hvernig markaðsvirðið er metið. En þegar við erum að fara að breyta umgjörðinni okkar er náttúrlega mikilvægt að við hugsum þetta vel. Lagaumgjörðin hefur fengið á sig réttmæta gagnrýni, að hún hafi ekki stutt nægilega vel við skuldarann eða lántakandann. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við búum ekki til nýtt kerfi, þ.e. að þau úrræði sem við erum komin með gangi í þá átt að fullu, það sé ekki bara bankinn sem fái lögfræðideildina sína til að slá á húsnæði einhverju markaðsvirði sem er svo erfitt að mótmæla eða fá fram einhverja breytingar á nema fyrir dómi og með tilheyrandi kostnaði fyrir lántakandann sem fólk sem komið er í veruleg greiðsluvandræði hefur einfaldlega ekki tíma eða getu til að sinna.