138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

útlendingar.

507. mál
[14:59]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Málefni útlendinga sem sótt hafa um hæli hér á landi hafa verið til talsverðrar umræðu og skoðunar undanfarin missiri. Vil ég af þeim sökum gera örstutta grein fyrir undirbúningi þessa máls.

Þann 21. apríl 2009 skipaði ég nefnd um meðferð hælisumsókna. Var nefndinni m.a. falið að fara yfir lög og reglur um meðferð hælisumsókna í ljósi réttarframkvæmda hér á landi, dóms Hæstaréttar 12. mars það ár og alþjóðlegra skuldbindinga og koma með tillögur um úrbætur væri þess þörf. Nefndin skilaði skýrslu sinni í júlí 2009. Var hún kynnt hagsmunaaðilum og þeim boðið að gera við hana athugasemdir. Í kjölfar þessa ferlis var Lagastofnun Háskóla Íslands falið að gera frumvarp á grundvelli tillagna nefndarinnar og þeirra athugasemda sem ráðuneytinu bárust vegna skýrslunnar.

Með frumvarpinu eru tillögur nefndarinnar færðar í frumvarpsform að því marki sem breytingar á gildandi lögum eru nauðsynlegar og þar sem þörf er á nýmælum í útlendingalögum. Þá eru nýjar heimildir til setningar reglugerðar lagðar til þar sem þurfa þykir umfram almenna reglugerðarheimild í 58. gr. laganna. Einnig má geta þess í þessu sambandi að frumvarpið var birt á heimasíðu ráðuneytisins þar sem öllum gafst kostur á að gera við það athugasemdir. Mun ég greina frá helstu breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu.

Í fyrsta lagi eru ákvæði um viðbótarvernd styrkt til muna. Er í frumvarpinu gert ráð fyrir að hugtakið „flóttamaður“ taki til fleiri en einungis þeirra sem teljast flóttamenn samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. flóttamannasamningsins en það eru þeir sem þurfa að óttast ofsóknir í heimalandi vegna kynþátta, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana. Þannig teljist útlendingur einnig til flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalandsins. Fram til þessa hefur einstaklingum í þessari aðstöðu verið veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Með þessu móti fá bæði þeir sem teljast eiginlegir flóttamenn í skilningi flóttamannasamningsins og þeir sem þurfa á viðbótarverndinni að halda hæli hér á landi.

Í öðru lagi er heimildarákvæði laganna um afturköllun á hæli skýrt til muna auk þess sem þar er að finna nýmæli þess efnis að heimilt sé að afturkalla hælisveitingu ef hæli hefur verið veitt og síðar kemur í ljós að flóttamaður hefur gerst sekur um nánar tiltekin alvarleg brot.

Í þriðja lagi eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á ákvæðum laga um dvalarleyfi af mannúðarástæðum á þá leið að veita megi slíkt dvalarleyfi ef sýnt er fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna mjög íþyngjandi félagslegra aðstæðna eða almennra aðstæðna í heimalandi eða viðtökulandi. Sem dæmi um íþyngjandi félagslegar aðstæður má nefna aðstæður kvenna sem sætt hafa kynferðislegu ofbeldi sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimalandi eða aðstæður kvenna sem ekki aðhyllast kynhlutverk í heimaríki og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Einnig getur það verið metið svo að vegna viðvarandi mannréttindabrota sem eigi sér stað í heimalandi viðkomandi beri að veita honum sérstaka vernd í formi dvalarleyfis. Ber í þessu sambandi að taka sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Þannig kæmi til greina að minni kröfur yrðu gerðar til að börn nytu verndar samkvæmt tillögunni.

Þá er í fjórða lagi lagt til að ákvæði 45. gr. laganna, sem felur í sér meginregluna um að vísa fólki ekki brott þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu, verði áfram í lögunum en þó með nokkrum breytingum. Í 45. gr. laganna er mælt fyrir um að hvorki megi senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem geta leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður né þess svæðis þar sem viðkomandi er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Í frumvarpinu er lagt til, líkt og nú er, að heimilt sé að gera undanþágu frá þessu ef ríkar ástæður eru til. Í frumvarpinu er hins vegar mælt fyrir um þau nýmæli að ekki megi framkvæma frávísun eða brottvísun þess sem fellur undir undanþáguheimildina fyrr en sú hætta er liðin hjá að viðkomandi verði fyrir ofsóknum, lífláti eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.

Í fimmta lagi hefur réttarstaða hælisleitenda og fylgdarlausra barna verið styrkt frá því sem áður var og lagðar til breytingar að því er varðar málsmeðferðarreglur um meðferð hælismála, m.a. að því er varðar málshraða, leiðbeiningarskyldu, birtingu ákvörðunar, frestun réttaráhrifa ef málið er borið undir dómstóla og réttindi til réttaraðstoðar þar sem sérstaklega er gert ráð fyrir því að fylgdarlausum börnum verði skipaður löglærður talsmaður frá þeim tímapunkti sem mál kemur til meðferðar hjá stjórnvöldum. Í því sambandi má einnig geta þess að í frumvarpinu er lagt til að þeim hælisleitendum sem falla undir ákvæði hinnar svonefndu Dyflinnarreglugerðar verði skipaður talsmaður á kærustigi máls. Með þeirri breytingu munu allir hælisleitendur eiga rétt á talsmanni á kærustigi nema kærð sé veiting dvalarleyfis af mannúðarástæðum í tilvikum þar sem óskað hefur verið eftir hæli.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.