138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

561. mál
[15:37]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Getur hæstv. ráðherra upplýst mig um afskriftirnar á milli gömlu og nýju bankanna þegar húsnæðislánin voru færð á milli?

Jafnframt langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig við þingmenn eigum að geta myndað okkur skoðun og tekið afstöðu til þessara hluta þegar okkur hefur ekki enn þá tekist að fá upplýsingar um hverjar afskriftirnar voru á milli gömlu og nýju bankanna. Ég er búinn að heyra tölur frá u.þ.b. helming sem var afskrifaður en hef ekki fengið það staðfest enn þá.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra, nú þegar það liggur fyrir að lán hafi verið afskrifuð um 50% á milli gömlu og nýju bankanna, hver skoðun hans sé á því að nýju bankarnir rukki vexti af öllu láninu. Það þýðir í raun og veru að verið sé að borga helmingi hærri vexti og eru nú vextir nógu háir á Íslandi. Hægt er að heimfæra þetta þannig að ef lán upp á 10 milljónir er yfirtekið í nýja bankann á 5 milljónir þá eru áfram borgaðir vextir af 10 milljónum. Í raun er verið að borga nýja bankanum helmingi hærri vexti en hann á skilið.

Mig langar í þriðja lagi að spyrja hæstv. ráðherra hver sé skoðun hans á því að tveir bankar séu búnir að kynna uppgjör sín fyrir árið 2009, annars vegar Landsbankinn með 14 milljarða hagnað og hins vegar Íslandsbanki með 24 milljarða hagnað, 40 milljarða á árinu 2009. Gæti verið, hæstv. ráðherra, að hagnaðurinn sé vegna þess að bankarnir gangi of hart fram gegn heimilunum í landinu? Gæti það verið ástæðan fyrir öllum þessum gróða hjá bönkunum núna? Þeir fengu kröfurnar ódýrar, á sirka helming, inn í nýju bankana. Þeir láta afskriftirnar ekki ganga til heimilanna, rukka svo vexti af allri upphæðinni og ganga þar af leiðandi mjög hart fram gegn heimilunum í landinu. Hver er skoðun hæstv. ráðherra á því? Gæti þetta verið skýringin á velgengni (Forseti hringir.) bankanna á síðasta ári?