138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

561. mál
[15:55]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég sit í þeirri þverpólitísku nefnd sem skipuð var í haust að afloknu ferli sem átti sér stað í þinginu þar sem við samþykktum, nánast öll sem eitt, frumvarp hæstv. félagsmálaráðherra um aðgerðir til handa skuldsettum heimilum. Sá hópur hefur starfað undanfarnar vikur, farið yfir löggjöfina og þau úrræði sem fólki standa til boða og reynt að sníða af þeim helstu agnúana. Þeim athugasemdum okkar í þverpólitíska vinnuhópnum var síðan að sjálfsögðu deilt með félagsmálaráðherra og ég tel að sú vinna hafi skilað sér inn í þau frumvörp sem líta hér dagsins ljós af hálfu ríkisstjórnarinnar. Og ég fagna því að hér sé að koma til réttarbóta á þessu sviði.

Hins vegar veltir maður fyrir sér hvort nóg sé að gert, hvort þau úrræði sem fyrir liggja séu fullnægjandi og dugi til þess að snúa við þeirri þróun sem við sjáum, að skuldavandi heimilanna er gríðarlegur. Við í þverpólitíska hópnum veltum núna fyrir okkur hver næstu skref hjá okkur eru, hvort það sé rétt að við þurfum að íhuga til hvaða úrræða þurfi að grípa til að sporna við því að fleiri fjölskyldur þurfi á þessum greiðsluvandaúrræðum að halda. Ég vonast til þess að við fáum að halda áfram með þá vinnu.

Margir hafa orðið til þess að tala um almennar aðgerðir, að nú sé svo komið að ekkert annað dugi til en að fara í almennar aðgerðir, leiðréttingu á höfuðstól húsnæðislána o.s.frv. Við höfum átt erfitt með að fá upplýsingar sem gera okkur kleift að meta það svigrúm sem bankarnir hafa til afskrifta og ég fagna þeirri vinnu sem nú er hafin í efnahags- og skattanefnd til að leita að svigrúminu. Það er gott að málið er enn í þverpólitískum farvegi, ég fagna því. Ég hef verið talsmaður þess að í þessum mikilvæga málaflokki tölum við saman, sitjum saman við borð og leitum lausna á þessu eina stærsta vandamáli íslenskra fjölskyldna. Við megum aldrei gleyma því að fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins og hana eigum við að vernda með ráðum og dáð. Það er eitt af okkar mikilvægustu hlutverkum og ég er stolt af því að hafa tekið þátt í því að við í þingheimi höfum getað unnið saman í þessum mikilvæga málaflokki. Ég vona sannarlega að svo verði áfram. Þá verður áfram að vera vilji til þess að standa í samráðinu og ég vonast til þess að svo verði.

Að sjálfsögðu höfum við fengið að heyra gagnrýni á okkur í stjórnarandstöðunni fyrir að vera ekki nógu grimm við hæstv. félagsmálaráðherra sem sumum hverjum þykir ekki ganga nógu langt. Ég tel samt að á endanum megum við ekki missa sjónar á markmiðinu og markmiðið er að koma með leiðir sem duga, leiðir sem nýtast þessum íslensku skuldsettu fjölskyldum til að geta farið að horfa fram á veginn, geta litið til þess að hér sé gott að búa, hér sé framtíðin o.s.frv. Okkar hlutverk er að veita fólki von, sýna fram á að við séum að vinna saman. Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt, ekki síst í þessum málaflokki.