138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

eldsumbrotin á Suðurlandi, yfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[13:37]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta tækifæri til að fá að gera fyrir hönd ríkisstjórnarinnar grein fyrir þróun mála hvað varðar gosið í Eyjafjallajökli og viðbúnaði og aðgerðum stjórnvalda í því sambandi. Þær miklu náttúruhamfarir sem þar eiga sér nú stað minna okkur hastarlega á hvar við búum og hversu lítil við erum þegar náttúruöflin minna á sig.

Ástandið undir Eyjafjöllum þar sem öskufall hefur orðið mest er að sjálfsögðu mjög alvarlegt og þrúgandi og hugur okkar er með íbúunum þar umfram allt annað. Að sjálfsögðu munu stjórnvöld gera það sem í þeirra valdi stendur til að aðstoða íbúa svæðisins. Ráðherrar og yfirmenn stofnana sem málin varða hafa heimsótt svæðið og munu gera áfram því að mikilvægt er að menn setji sig inn í aðstæður íbúanna, þekki þær frá fyrstu hendi og geti þannig sem best metið hvað þarf að gera og hvað hægt er að gera til að glíma við þessar erfiðu og ógnvænlegu aðstæður.

Ríkisstjórnin ræddi málið ítarlega á fundi sínum í morgun. Viðkomandi ráðherrar og reyndar flestir ráðherrar ríkisstjórnarinnar gerðu grein fyrir vinnu innan ráðuneyta sinna og undirstofnana sem tengjast aðgerðum eða viðbúnaði. Það er nú svo að þessir atburðir láta fæst svið mannlífsins ósnortin.

Meðal þess sem þar var á dagskrá var eftirfarandi: Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að ríkissjóður muni ábyrgjast nauðsynleg lán eða tryggja Bjargráðasjóði nægjanlegt fé til að sinna sínu lögbundna hlutverki hvað varðar tjónabætur sem undir verksvið sjóðsins falla. Þá kom fram að Viðlagatrygging Íslands er fjársterk og mun ekki eiga í neinum vandræðum með að bæta það tjón sem kann að heyra undir hennar verksvið. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra munu sameiginlega halda utan um þennan þátt málsins.

Það er mikilvægt að skráning og mat verði samræmt og vandað og unnið í samráði við þá aðila sem málið varðar þannig að sem fyrst liggi fyrir greinargóðar upplýsingar um tjón sem hefur orðið og hvernig með skuli fara. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að upplýsingum sé skipulega komið á framfæri við íbúa svæðisins og þeim veitt eftir atvikum sálgæsla og annar nauðsynlegur stuðningur. Þjónustumiðstöðvar verða opnaðar tímabundið á Heimalandi og í Vík en dómsmálaráðherra mun í umræðunni gera nánari grein fyrir þessum þáttum og öðru sem að almannavörnum snýr.

Upplýsingamiðlun til annarra en íbúa á svæðinu er komin í fastar skorður hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra með samstarfshópi um upplýsingamál. Daglega eru sendar út tilkynningar um stöðu mála til innlendra og erlendra fjölmiðla sem og þeirra aðila sem koma að aðgerðum á svæðinu. Án efa hefur vinna hópsins sem fer með upplýsingamálin leitt til þess að fréttaflutningur erlendra fjölmiðla tók umtalsverðum framförum frá fyrstu dögum gossins til dagsins í dag. Upphaflega einkenndist fréttaflutningur um of af hræðslu og gífuryrðum er áttu sér litla stoð í raunveruleikanum. Þetta hefur smám saman breyst með virkri upplýsingastýringu en mikilvægt er að ræða um þessi mál af yfirvegun og leggja nýjustu upplýsingar frá sérfræðingum á hverjum tíma til grundvallar í umræðum um þau.

Sú þróun gossins sem hófst að því er virtist á sunnudagsmorguninn úr sprengigosi í rólegra gos með minni sprengivirkni og vonandi minna öskufalli og meira hraunflæði er að sjálfsögðu jákvæð en ekkert er þó hægt að fullyrða um framhaldið. Sams konar gos gæti tekið sig upp á nýjan leik á nýjum stað undir jöklinum og sérfræðingar stofnana okkar sem málið varðar fylgjast grannt með og leggja sífellt mat á ný gögn. Í því sambandi hefur reynst ákaflega dýrmætt að hafa nú aðgang að landhelgisgæsluflugvélinni nýju sem er búin besta fáanlegum búnaði sem tiltækur er við rannsóknir úr lofti af því tagi sem þar fara fram. Einnig vitum við, og það er fagnaðarefni, að á þessu sviði standa sérfræðingar okkar framarlega í heiminum.

Flugsamgöngur eru vonandi að komast smátt og smátt í eðlilegt horf. Það er mikilvægt að leggja á það áherslu út á við að að slepptu áhrifasvæði gossins þar sem ástandið er vissulega alvarlegt ganga hlutirnir eðlilega fyrir sig á Íslandi. Það er með öllu óþarft og mjög óheppilegt að skapaður sé viðbótarórói og hræðsla með t.d. vangaveltum um mögulegt Kötlugos. Yfirveguð umfjöllun og æðruleysi er mikilvæg við þessar aðstæður. Skilaboðin til umheimsins eiga að vera þau að hér sé full stjórn á öllu sem mannlegur máttur fær við ráðið. Við megum ekki draga upp þá mynd af landinu út á við að hér sé eitthvert upplausnar- eða ógnarástand, að Ísland sé hættulegt land að heimsækja eða annað í þeim dúr. Það er óþarfi að fjölyrða um hversu alvarleg og neikvæð áhrif slíkt getur haft, t.d. á ferðaþjónustu okkar, fleiri greinar og hagsmuni landsins alls. Hitt er öllum ljóst að Ísland er land þeirrar gerðar sem raun ber vitni og við erum minnt á um þessar mundir.

Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, Alþingis og þjóðarinnar allrar færi ég þeim fjölmörgu sem nú hafa lagt hart að sér, og gera enn, vegna þessara atburða þakkir fyrir störf þeirra. Ég nefni þar sérstaklega almannavarnayfirvöld, bæði samhæfingarmiðstöðina í Skógarhlíð og þá sem stjórna á vettvangi í nágrenni gosstöðvanna. Ég nefni lögreglu, björgunarsveitir, Landhelgisgæsluna, Vegagerðina, vísindamenn okkar o.fl. sem af mikilli ósérhlífni og dugnaði leggja nú á sig erfið störf við vandasamar aðstæður. Við verðum að vona það besta og treysta því að það takist að vinna úr þessum málum á eins farsælan hátt og kostur er. Við Íslendingar erum auðvitað vön því af langri sambúð við okkar fögru en óblíðu náttúru að þar getur dregið til stórra tíðinda og við erum ágætlega undir það búin að takast á við þau eins og sjá má af vönduðum skýrslum sem fyrir lágu og kortlagt höfðu hættu af hlaupum og eldgosum í Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli. Þær hafa nú sannað gildi sitt. Viðbúnaður af því tagi er okkur mikilvægur og hefði betur verið til á fleiri sviðum þegar hamfarir af manna völdum gengu yfir í öðrum tilvikum.

Þetta vildi ég um málið segja, frú forseti, og þakka fyrir að fá aðstöðu og tíma til að gera grein fyrir stöðu mála af hálfu ríkisstjórnarinnar.