138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

Vinnumarkaðsstofnun.

555. mál
[15:27]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi undirbúning að gerð frumvarpsins. Vinna hófst síðasta sumar, í samræmi við ákvæði stjórnarsáttmála, um undirbúning að sameiningu þessara tveggja stofnana og Tryggingastofnunar ríkisins. Vinna hófst með aðstoð ráðgjafa í sumar. Þeir skiluðu niðurstöðu í lok árs. Í þeirri vinnu var rætt við starfsmenn stofnananna allra þriggja og farið mjög vandlega yfir verksviðin þar. Tillaga ráðgjafanna var um þessa sameiningu og sýndi mikla samlegð með sameiningu allra stofnananna þriggja, en jafnframt að þessi tiltekna sameining milli Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlits mundi hafa sérstakan ávinning. Það varð síðan niðurstaða, sérstaklega í ljósi umtalsverðrar andstöðu Alþýðusambands Íslands við það að Tryggingastofnun yrði með í þessari sameiningu, að ákveðið var að bíða með þann þátt. Margir aðrir þættir mæla líka með því að beðið verði með þátt Tryggingastofnunar inn í þessa heildarsameiningu og ekki hvað síst sú staða að Tryggingastofnun er enn ekki fullkláruð hvað varðar aðskilnað Sjúkratrygginga og Tryggingastofnunar Íslands. Þar á eftir að taka ákvarðanir og ákveða í reynd hvernig sú stofnun á að líta út. Það var því ákvörðun okkar að fara af stað með sameiningu þessara tveggja stofnana. Við höfum kynnt þessar hugmyndir fyrir starfsmönnum. Við þurfum að fara fram með lagafrumvarp núna ef sameiningin á að takast um næstu áramót. Þetta er unnið í ágætu samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins og þeir munu koma að samvinnu um útfærslurnar að þessu efni og um kerfissetningu stofnunarinnar í sérstakri samráðsnefnd sem ég mun skipa á næstu dögum. Það verður þannig haft víðtækt samráð um þetta og það verður líka víðtækt samráð við starfsmenn.