138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

Vinnumarkaðsstofnun.

555. mál
[15:41]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum horft mjög til svæðisskiptingar vegna sóknaráætlunarinnar og vorum í sumar í fararbroddi að kalla eftir því að hún lægi fyrir sem allra fyrst til þess einmitt að auðvelda okkur endurskipulagningarvinnu á landsbyggðinni. Til viðbótar við útstöðvar þessara tveggja stofnana eru 27 útibú Tryggingastofnunar vítt og breitt um landið. Hugsunin var alltaf sú að með sameiningu allra stofnananna þriggja færðust þau útibú inn í útstöðvarnar úti á landi. Það á auðvitað eftir að klára það mál en ég sé ekkert því til fyrirstöðu að úti á landi fari útibú Tryggingastofnunar inn með útibúum þessara stofnunar. Það kann að falla mjög vel að. Við þurfum bæði að hagræða í því hvernig við veitum þjónustu út um landið og í uppbyggingu höfuðstöðvanna hér.

Varðandi tenginguna við Evrópusambandsaðildarumsóknina þá er þetta upplegg byggt á þeim hugmyndum og viðmiðum sem best gerast í þróun vinnumarkaðsfræða á vettvangi Evrópusambandsins. Hvað varðar mögulega aðstoð sem Íslandi sem aðildarríki stendur til boða við uppbyggingu á stofnuninni þá ræddi ég það við Vladimir Spidla, þáverandi framkvæmdastjóra vinnumarkaðsmála, þegar hann kom hér í nóvember. Hann bauð fram aðstoð Evrópusambandsins við uppbyggingu innviða hjá okkur, því við erum nokkuð vanbúin í því að takast á við endurþjálfun fólks sem hefur glímt lengi við atvinnuleysi, en miklu meiri reynsla er í því á evrópskum vettvangi. Hann bauð fram aðstoð við það. Við munum fara yfir það nú í framhaldinu hvernig við getum fengið sem besta aðstoð við uppbyggingu, þó að við höfum í sjálfu sér náð að lyfta grettistaki í þjónustu við atvinnulausa frá því í haust.