138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[18:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, þetta eru ásættanleg vinnubrögð. Þau eru vandlega undirbúin. Það var haft samráð við þá aðila sem málið varðar, m.a. alþjóðlega samstarfsaðila gagnvart þessum verkefnaflokki, þannig að ég tel að þetta sé meira en ásættanleg vinnubrögð. Ég tel líka að þessi vinnubrögð séu eðlileg í því umhverfi sem við búum við núna. Við erum að ráðast í það að stokka upp stofnanir ríkisins, samhæfa þær og samræma til að fá meira fyrir það fjármagn sem í þær er sett. Ég tel að það liggi í þeim grundvallarhugmyndum sem unnið er með og í skýrslunni koma fram miklir möguleikar til að spara fé. Ég bendi á að það höfum við gert nú þegar gagnvart þessari stofnun. Ég legg einnig ríka áherslu á það að í þessu frumvarpi er mjög tryggilega búið um alla hnúta sem tengjast réttindum starfsmanna, ef í ljós kemur við vinnu nefndarinnar að svo sé að einhverju leyti ekki þá munum við væntanlega bæta úr því. En það liggur alveg klárt fyrir að af minni hálfu er fullur vilji til að draga úr óvissu starfsmannanna. Það liggur fyrir að þeir hafa búið við töluverða óvissu um alllangan tíma. Henni er eytt með þessu. Það er sagt alveg kýrskýrt með hvaða hætti á að fara í þetta verkefni og réttindi þeirra eru í gadda slegin.