138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[18:25]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með það sem fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra að gengið hafi verið kröftuglega frá því að þær breytingar sem hér eru boðaðar breyti engu um alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Það skiptir náttúrlega meginmáli í þessu efni.

Ég vil fagna því að þetta frumvarp og annað frumvarp sem var lagt fram fyrr í dag um sameiningu stofnana í Vinnumarkaðsstofnun eru komin fram, vegna þess að ég tel mjög mikilsvert að sú vinna sem boðuð hefur verið við einföldun og sameiningu stofnana hefjist. En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort við þessa vinnu hafi verið sett fram eitthvert hagræðingarmarkmið vegna þess að ég sé það ekki. Hér stendur að það verði talsverður sparnaður og ég spyr hvort sett hafi verið fram einhver markmið, að spara 10% eða einhverja tugi milljóna eða einhverja upphæð.