138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[19:48]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ef einhver veldur ótta hjá starfsmönnum held ég að hæstv. utanríkisráðherra axli þá ábyrgð.

Í frumvarpinu stendur, með leyfi forseta:

„Lagt er til að því starfsfólki sem við gildistöku laga þessara fæst við þau verkefni sem kunna að verða falin öðrum stofnunum, verði boðið starf hjá þeim ríkisstofnunum sem falin verða verkefni samkvæmt lögum þessum til 1. janúar 2011, sbr. 7. gr. a.“

Ég ítreka því spurningu mína: Hver verður staða starfsmanna Varnarmálastofnunar eftir niðurlagningu stofnunarinnar þann 1. janúar 2011? Ég vona svo sannarlega að í svari við spurningu minni geti hæstv. utanríkisráðherra tekið af allan vafa um að það sé vilji hans að þetta starfsfólk sé áfram í vinnu hjá íslenska ríkinu ef það hefur áhuga á.