138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

hlutafélög, einkahlutafélög og ársreikningar.

569. mál
[21:19]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga, minnihlutavernd og fleira. Málið er á þingskjali 960, mál nr. 569.

Frumvarp þetta er byggt á skýrslu þeirri er fyrrverandi viðskiptaráðherra bað Lagastofnun Háskóla Íslands um að semja í kjölfar hrunsins um minnihlutavernd í hlutafélögum og einkahlutafélögum og frumvarpsdrögum á þeim grundvelli. Að því verki stóðu lögfræðingarnir og háskólakennararnir Stefán Már Stefánsson og Eyvindur G. Gunnarsson. Þar að auki er bætt við ákvæðum um breytingu á reglum um starfskjör stjórnar og æðstu stjórnenda í hlutafélögum og einkahlutafélögum á grundvelli nýrra EES-tilmæla, ákvæðum um einfaldari leiðir varðandi undanþágu frá innköllunarskyldu við lækkun hlutafjár í hlutafélögum og einkahlutafélögum og fleiri atriði til einföldunar við undanþágur varðandi m.a. heimilisfesti stofnenda, stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og útibússtjóra, svo og ákvæðum um tryggingu fyrir kostnaði vegna rannsóknar á hlutafélögum og einkahlutafélögum. Þar að auki er gert ráð fyrir þrengingu ákvæða varðandi sölu og kaup á eigin hlutum með tilliti til hæstaréttardóma nr. 228/2009, en sá ágreiningur reis vegna kaupa Glitnis á eigin bréfum, og 350/2009 sem reis vegna deilna um sölu Straums–Burðaráss á eigin bréfum.

Tilgangur þessa lagafrumvarps er samkvæmt framansögðu fyrst og fremst að styrkja minnihlutavernd í hlutafélögum og einkahlutafélögum. Þó að hagsæld félagsins sé alla jafna helsta hagsmunamál hluthafa fara hagsmunir meiri hlutans og minni hlutans ekki ávallt saman. Reglum um minnihlutavernd er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að veita valdi meiri hlutans ákveðið mótvægi. Reglur um minnihlutavernd verða þó að hafa sín takmörk sem byggjast á því að virða verður ótvíræðan rétt meiri hlutans til þess að stjórna félaginu og fara með hagsmuni þess. Slík sjónarmið leiða einnig til þess að reglur um minnihlutavernd mega ekki íþyngja félagi um of. Um minnihlutavernd vil ég að öðru leyti vísa í almennar athugasemdir með lagafrumvarpinu.

Í framangreindri skýrslu Lagastofnunar Háskóla Íslands sem birt er á vef efnahags- og viðskiptaráðuneytisins voru borin sérstaklega saman ákvæði í annarri norrænni löggjöf um hlutafélög og einkahlutafélög með tilliti til minnihlutaverndar. Var athugað hvort einhver ákvæði gætu verið til bóta og leitt til aukinnar minnihlutaverndar hér á landi. Í sumum tilvikum var þó metið að ekki væri sérstök þörf úrbóta.

Vil ég nú nefna nokkur dæmi um tillögur um lagabreytingar sem stefnt er að á grundvelli skýrslunnar um minnihlutavernd.

Í 2. gr. frumvarpsins er tillaga um nýmæli sem á sér fyrirmynd í norsku einkahlutafélagalögunum en sams konar ákvæði er ekki að finna í löggjöf annarra Norðurlanda. Er mælt fyrir um að hluthafi geti krafist dóms fyrir því að félagið innleysi hlut hans í félaginu ef veigamikil rök standa til þess og honum verði gert kleift að losna úr því af ákveðnum ástæðum. Skilyrði er þó að innlausn leiði ekki til umtalsverðs tjóns fyrir félagið eða leiði með öðrum hætti til ósanngjarnrar niðurstöðu fyrir það. Sett eru þröng skilyrði fyrir því að dómstóll geti beitt reglu þessari. Möguleiki er að félagið finni sjálft kaupanda að hlutabréfinu þannig að ekki þurfi að koma til beitingar innlausnarákvæðisins.

Í 6. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir breytingu á 1. mgr. 76. gr. hlutafélagalaga en samkvæmt henni mega félagsstjórn, framkvæmdastjóri og aðrir þeir er hafa heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins ekki gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru til þess fallnar að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins. Er gert ráð fyrir að skilyrði stjórnar og framkvæmdastjórnar verði þrengd með því að fella niður orðið „bersýnilega“ og mun þetta geta styrkt minnihlutavernd.

Í 8. gr. frumvarpsins er lagt til að ráðgjafi hluthafa njóti málfrelsis á hluthafafundi. Er það nýmæli sem styrkir minnihlutavernd og á sér fordæmi í norskum og sænskum rétti. Þá er gert ráð fyrir að umboð til handa umboðsmanni verði lengt til eins árs frá dagsetningu þess en ekki fimm ára en svo langur frestur til handa umboðsmanni þykir geta gert hluthafa óvirka um of. Eins árs frestur yrði í samræmi við gildandi danskan og sænskan rétt.

Í 9. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að ekki þurfi 10% hlutafjár til að gera kröfu um aukafund eins og nú er í íslenskum hlutafélagalögum og sambærilegum dönskum og sænskum lögum, heldur nægi 5% svipað og í norskum rétti. Getur þetta aukið minnihlutavernd.

Í 10. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því sem aðalreglu að boða þurfi til hluthafafundar með minnst tveggja vikna fyrirvara í stað viku eins og er í íslenskum hlutafélagalögum nú sem og í dönskum lögum. Í öðrum ríkjum Evrópusambandsins en í Danmörku er slíkur lágmarksfrestur á bilinu 14–30 dagar. Þessi tillaga var lögð fram á grundvelli skýrslu viðskiptalífsnefndar fyrir nokkrum árum en hlaut þá ekki afgreiðslu. Nú er gert ráð fyrir að boða megi til hluthafafundar í undantekningartilfellum með sjö daga fyrirvara ef hluthafar sem ráða yfir a.m.k. 90% af hlutafé samþykkja það fyrir fram skriflega. Líklegt er að undanþáguheimildin verði helst notuð í félögum með fáa hluthafa en í slíkum tilvikum getur 14 daga boðunarfrestur verið óþarflega langur. Þess má geta að samkvæmt lögum nr. 126/2009, um breyting á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög, sem taka til hlutafélaga þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulögðum verðbréfamarkaði, gildir meginregla um þriggja vikna frest til boðunar hluthafafunda í þeim hlutafélögum. Sé unnt að boða til hluthafafunda rafrænt í þessum félögum nægja þó tvær vikur en 10 dagar ef um framhaldshluthafafund er að ræða.

Í 11. gr. frumvarpsins er lagt til að skerpt verði á upplýsingarétti félagsstjórnar og framkvæmdastjóra. Það er veiting upplýsinga þarf að valda félagi verulegu tjóni en ekki aðeins tjóni án nánari skilgreiningar til þess að félagsstjórnin og framkvæmdastjórinn geti vikist undan upplýsingagjöf. Þetta er til samræmis við norrænan rétt.

Í 12. gr. frumvarpsins eru enn ákvæði um minnihlutavernd. Samkvæmt 95. gr. hlutafélagalaga má hluthafafundur ekki taka ákvörðun sem bersýnilega er til þess fallinn að afla ákveðnum hlutum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins. Er lagt til að orðið „bersýnilega“ verði fellt brott úr greininni. Sú breyting sem lögð er til er í samræmi við norskan og sænskan rétt.

Í 13. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að samþykki hluthafafundar þurfi til að binda félagið þegar gerðir eru samningar milli þess og ýmissa fyrirsvarsmanna þess og tengdra aðila. Gildir þetta um samninga sem nema að raunvirði meira en 1/20 hlutafjárins. Hér hefur einkum verið höfð hliðsjón af norskum lögum. Úrræðum samkvæmt þessari grein frumvarpsins varðandi sérfræðiskýrslu svipar til tillögu til þingsályktunar frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og fleirum varðandi kaup eigna af hluthöfum.

Hvað snertir önnur ákvæði frumvarpsins en þau sem lúta beinlínis að minnihlutavernd vil ég segja eftirfarandi:

Í 3. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir einföldun stjórnsýsluframkvæmdar þegar sótt er um undanþágu hvað varðar innköllunarskyldu til lækkunar hlutafjár, þ.e. birtingu um lækkun hlutafjár í Lögbirtingarblaði. Yrði efnahags- og viðskiptaráðherra heimilt að framselja vald sitt til hlutafélagaskrár til að spara mönnum sérstaka ferð í ráðuneytið.

Í 1. og 5. gr. frumvarpsins eru svipuð ákvæði sem síðar geta leitt til einföldunar. Í 1. gr. er heimild til handa efnahags- og viðskiptaráðherra að framselja til hlutafélagaskrár undanþáguvald varðandi heimilisfesti stofnenda hlutafélags og undanþágu til að frjáls félagasamtök geti verið meðal stofnenda hlutafélags. Í 5. gr. er gert ráð fyrir samsvarandi undanþágu til hlutafélagaskrár ef veita á framkvæmdastjórum og stjórnarmönnum undanþágu frá heimilisfesti en ákvæðið nær jafnframt til útibússtjóra.

Í 4. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir breytingu á 3. mgr. 55. gr. hlutafélagalaganna, m.a. með hliðsjón af fyrrnefndum hæstaréttardómi nr. 228/2009, vegna viðskipta með bréf Glitnis. Þykir rétt að takmarka heimild stjórnar í hlutafélögum þar sem hlutirnir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, eða á markaðstorgi fjármálagerninga eins og það er kallað, til að ákveða fjárhæð þá sem félagið má reiða fram sem endurgjald fyrir kaup á eigin hlutum. Ákvæðin taka líka til sölu á eigin hlutum þessara félaga. Er kveðið á um að miðað skuli við síðasta skráða dagslokagengi á markaði áður en samningur var gerður til að draga úr líkum á kaupum á yfirverði eða sölu á undirverði.

Jafnframt er gert ráð fyrir því að í öðrum hlutafélögum geti hluthafar sem ráða yfir minnst 5% hlutafjár krafist þess innan mánaðar frá því að stjórn tilkynnir um samning að endurskoðanda verði falið að meta hvort verð það sem stjórn hefur samið um sé sanngjarnt og efnislega rökstutt. Komist endurskoðandi að þeirri niðurstöðu að verðið sem stjórn samdi um hafi verið ósanngjarnt eða ekki nægilega rökstutt getur hluthafi eftir atvikum átt bótaábyrgð á hendur félaginu eða stjórn þess. Vísast til skaðabótakafla laganna í því sambandi. Hugsast getur að stjórn hafi gert fyrirvara í samningi um hugsanlegar athugasemdir hluthafa þannig að gera megi breytingar og ekki reyni á skaðabótaábyrgð.

Í 7. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir breytingum á 79. gr. a í hlutafélagalögum vegna nýrra tilmæla framkvæmdastjórnarinnar 2009/385/EB frá 30. apríl 2009, um breytingu á tilmælum 2004/013/EB og 2005/165/EB að því er varðar starfskjör stjórnenda í félögum sem hafa fjármálagerninga sína tekna til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Þykir starfskjarastefna í félögum stundum hafa tekið mið af skammtímasjónarmiðum í stað langtímahagsmuna þeirra. Er nú m.a. leitast við að hafa árangur félaga í huga, setja takmörk á breytilega þætti starfskjaranna, fresta útborgunum og miða t.d. við þrjú til fimm ár, gera ráð fyrir endurgreiðslum í vissum tilvikum og reyna að tryggja að starfslokagreiðslur séu ekki inntar af hendi í kjölfar slaks árangurs. Þá er gert ráð fyrir að stjórnarmenn skuli ekki njóta kaupréttar á hlutum. Felast í tillögunum hömlur á frjálsræði félaga á þessu sviði. Tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 2009/384/EB frá 30. apríl 2009, um starfskjarastefnu í fjármálageiranum, eru ekki tekin til meðferðar í þessu frumvarpi. Almenn ákvæði þessarar greinar frumvarpsins gilda þó um starfskjarastefnu í fjármálageiranum nema sérákvæði víki þeim til hliðar.

Í 14. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að sett verði svipað ákvæði um tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar á rannsókn og er í 87. gr. hlutafélagalaga um tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar vegna boðunar til fundar.

Ég tel ekki ástæðu til að gera sérstakar athugasemdir vegna breytinga á ákvæðum einkahlutafélagalaga heldur vísa til frumvarpsins þar um, enda eru þær breytingar sem lagðar eru til á einkahlutafélagalögum sambærilegar við nokkrar þær breytingar á hlutafélagalögum sem ég hef áður rakið.

Í 28. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir breytingu á 2. mgr. 96. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, þannig að 1/10 hlutafjárins nægi í stað 1/5 til að samþykkja tilnefningu á svokölluðum endurskoðanda minni hlutans sem taki þátt í endurskoðunarstörfum með kjörnum endurskoðanda til næsta aðalfundar. Getur þetta ákvæði aukið minnihlutavernd.

Fjármálaráðuneytið telur ekki að frumvarpið muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð verði það lögfest óbreytt. Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni umræðu vísað til viðskiptanefndar.