138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[23:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp er komið fram og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að mæla fyrir því. En ég tek undir það hjá hv. þingmanni að það sé kannski frekar seint fram komið. Ef ég skil frumvarpið rétt finnst mér svona að menn ætli sér ekki að flýta sér neitt sérstaklega við að rannsaka þetta eða koma með niðurstöður í það sem hér á að gera samkvæmt frumvarpinu.

Hér stendur, með leyfi forseta, í athugasemdum á bls. 3 að afar brýnt sé að stjórnvöld hafi völ á sem nýtilegustum upplýsingum um þessa stöðu hverju sinni. Nú kann að vera að komið hafi fram í máli hæstv. ráðherra hvenær búast megi við fyrstu niðurstöðum, ef má orða það þannig, þ.e. ef ekki á að bíða eftir þeim til 2013. Mér þætti ágætt að fá upplýsingar um það hjá hæstv. ráðherra hvenær við megum eiga von á þessum upplýsingum. Síðan er á bls. 5 talað um óhagræði lögaðila, þ.e. það segir í frumvarpinu að við ætlum ekki að ónáða þessa aðila of oft til að ná í þessar upplýsingar. Ég hef þá trú að þegar einu sinni er búið að gera þetta eigi þær stofnanir sem þarna eiga í hlut ekki í vandkvæðum með að ná í upplýsingarnar aftur. Ég held að skoða ætti með jákvæðum huga að þeim verði skylt að láta þetta af hendi þegar þess er óskað, en auðvitað geta verið einhver tæknileg vandamál sem ég þekki ekki en þetta slær mig svona hér.

Í athugasemdum við 5. gr. er talað um ákvörðunarvald um birtingu afurða rannsóknarinnar. Þá velti ég fyrir mér hvort það sé virkilega þannig að þessi þriggja manna nefnd stjórni því hvernig farið verður með upplýsingar sem koma út úr þeirri rannsókn. Á Alþingi ekki að hafa neina kröfu eða neinn beinan aðgang að þessum upplýsingum? Ef svo er ekki er þetta stórlega gallað að mínu viti. Það hlýtur að vera krafa okkar að Alþingi eða einhver nefnd, þó að hún þurfi að hafa fullan trúnað um það sem kemur fram og þó sé ég ekki alveg að það eigi að vera trúnaður um niðurstöðurnar sem koma út úr rannsókninni því að það hlýtur að eiga að nota þær til taka ákvarðanir og móta stefnu og annað og því hlýtur Alþingi að þurfa að hafa aðgang að þeim. Það væri ágætt ef hægt væri að skýra þetta og þá getur sú nefnd sem fær þetta til umfjöllunar væntanlega tekið á því.

Svo er vitanlega mikilvægt að nefna að ekki er talað um það hvernig eigi að fjármagna þetta. Hins vegar kemur fram í umsögn fjármálaráðuneytisins að einhver kostnaður verður af þessu. Til að þessi rannsókn geti farið fram munum við að sjálfsögðu beita okkur fyrir því að hægt sé að finna fjármuni í þetta, því að mjög mikilvægt er að safna þessum upplýsingum að mínu viti. Ég hef ekki sömu áhyggjur af því og sumir þingmenn hvernig farið verði með upplýsingarnar. Ég tel að það komi nokkuð vel fram í frumvarpinu. Ég held að ekki eigi að útiloka það að þessari vinnu verði haldið áfram því að eins og segir í frumvarpinu er nauðsynlegt að stjórnvöld hafi á hverjum tíma nýjustu upplýsingar eða raunupplýsingar og því kem ég aftur að þeirri spurningu sem ég bar fram áðan: Er ekki alveg öruggt að þessar upplýsingar komi fljótlega eða erum við virkilega að horfa fram á rannsókn sem taka mun langan tíma og ekki nýtast okkur fyrr en eftir mánuði eða ár jafnvel?

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra.