138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

veiðar á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.

489. mál
[14:20]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn og verð að viðurkenna að sú niðurstaða sem virðist koma fram í nefndaráætlun kemur mér mjög á óvart þar sem ég hef komið að undirbúningi þessa máls frá upphafi. Það var alltaf talað um eðlilega landnýtingu. Heimamenn hafa unnið mjög faglega að veiðimálum og hafa t.d. gert mjög góð og fagleg stígakort og leiðbeint mönnum inn á þau. Ég verð að viðurkenna að það veldur mér miklum vonbrigðum ef það er tilfellið með það eðlilega og góða samspil manns og lands við veiðar sem þarna hafa verið stundaðar. Ég held að það geri veg Vatnajökulsþjóðgarðs mun minni ef við náum ekki góðri sátt um þetta mál. Í ferðaþjónustu er farið að treysta mjög á veiðar þannig að ég vona að hér sé einungis um drög að ræða (Forseti hringir.) og ákveðnar breytingar verði gerðar.