138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

fjárhagsleg endurskipulagning sparisjóðakerfisins, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[15:38]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Hæstv. forseti. Í kjölfar bankahrunsins varð strax ljóst að fjárhagsstaða íslensku sparisjóðanna var, með örfáum undantekningum, afar erfið. Afkoma sparisjóðanna var afleit árið 2008. Hjá flestum þeirra varð veruleg rýrnun á eigin fé, einkum vegna lækkunar á hlutabréfavirði og gangvirði eignarhluta í félögum en einnig vegna taps á útlánum og skuldabréfaeign. Þá var afkoma af kjarnastarfsemi fyrir skatta neikvæð hjá flestum þeirra og hafði raunar verið það löngu fyrir hrun bankakerfisins. Það lá því fyrir að margir sparisjóðanna hefðu þörf fyrir að auka stofnfé sitt til að styrkja eiginfjárgrundvöll og rekstrarhæfi og að jafnframt þyrfti að hagræða mikið í rekstri sparisjóðakerfisins.

Eins og margar aðrar innlendar fjármálastofnanir og raunar erlendar líka höfðu margir sparisjóðir byggt hagnað sinn á djörfum fjárfestingum á undangengnum árum og gátu þar með horft fram hjá því að undirliggjandi rekstur stæði ekki undir kostnaði. Þannig var rekstrarkostnaður sumra sparisjóða vel yfir 100% af tekjum af svokallaðri kjarnastarfsemi, fyrst og fremst hefðbundnum inn- og útlánum, sem flestir myndu telja að ætti að vera kjarni í rekstri sparisjóðs.

Þá höfðu nokkrir sparisjóðir á síðustu árum hækkað stofnfé sitt mjög mikið og greitt stofnfjáreigendum ríflegan arð, sem gekk á varasjóði þeirra. Stærsta sparisjóðnum, SPRON, var sem kunnugt er breytt í hlutafélag og nokkrir aðrir sjóðir stefndu að sambærilegri breytingu. Til undirbúnings því var ráðist í mikla loftfimleika við útgáfu stofnfjár og arðgreiðslur þannig að hluti af óráðstöfuðu eigin fé sparisjóðanna færðist til stofnfjáreigenda.

Þessi saga liggur þegar fyrir að verulegu leyti þótt ýmsum spurningum sé ósvarað. Það er mikilvægt að hún verði öll skráð svo hægt sé að draga af henni eðlilegan lærdóm og komast að því hvar ábyrgð liggur. Ég tek því undir með þeim, m.a. rannsóknarnefnd Alþingis, sem telja ástæðu til að rannsaka það hvers vegna íslenska sparisjóðakerfið fór svo illa út af sporinu sem raun ber vitni. Ég geri ráð fyrir að þingmannanefndin sem fjallar um fyrrnefnda skýrslu rannsóknarnefndarinnar muni taka afstöðu til þess hvort og þá hvernig slík rannsókn mun fara fram.

Tveir umsvifamiklir sparisjóðir voru komnir í veruleg vandræði áður en bankakerfið hrundi. Stóðu þess vegna yfir viðræður milli Kaupþings og SPRON annars vegar og Kaupþings og Sparisjóðs Mýrasýslu hins vegar á haustmánuðum 2008 um sameiningu sparisjóðanna tveggja við Kaupþing.

Þegar efnahagsreikningar sparisjóða voru gerðir upp í lok árs 2008 blasti við að varasjóður var í mörgum tilfellum löngu uppurinn og jafnvel orðinn neikvæður í mörgum sparisjóðanna.

Erfiðleikar sparisjóðanna voru einnig nátengdir erfiðleikum Sparisjóðabankans, sem hét um tíma Icebank. Þannig höfðu sparisjóðirnir í umtalsverðum mæli keypt skuldabréf stóru bankanna þriggja, lagt þau að veði gegn lánum frá Sparisjóðabankanum sem aftur lagði bréfin að veði í Seðlabankanum gegn aðgengi að lausu fé. Þessi viðskipti hafa almennt verið nefnd viðskipti með „ástarbréf“. Þegar stóru bankarnir sigldu í þrot urðu skuldabréf þeirra að sjálfsögðu verðlítil. Sparisjóðabankinn fór í þrot og við það eignaðist Seðlabankinn umtalsverðar kröfur á hendur sparisjóðunum.

Auk þess að vera umsvifamikill lánveitandi sparisjóðanna þjónaði Sparisjóðabankinn þeim m.a. á vettvangi greiðslumiðlunar og fjárstýringar. Þrot Sparisjóðabankans hafði því slæm áhrif á sparisjóðakerfið í heild.

Sparisjóðabankinn, SPRON og Sparisjóður Mýrasýslu áttu í viðræðum við kröfuhafa vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar veturinn 2008–2009. Öll höfðu þessi fjármálafyrirtæki fengið ítrekaðan frest frá Fjármálaeftirlitinu til að lagfæra eiginfjárstöðu sína sem var neikvæð og þar með langt undir lögbundnu lágmarki.

Hinn 21. mars í fyrra tók Fjármálaeftirlitið yfir stjórn Sparisjóðabankans og SPRON. Viðræður við lánardrottna höfðu ekki skilað árangri og ljóst var að lausafjárstaða þeirra og eiginfjárstaða var slík að ekki varð við það búið lengur.

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins voru innstæður viðskiptavina SPRON fluttar til Nýja Kaupþings, sem nú heitir Arion banki, og gátu viðskiptavinir SPRON nálgast innstæður sínar þar. Byr tók við hlutverki greiðslumiðlunar fyrir sparisjóðina sem Sparisjóðabankinn hafði áður þjónað. Sparisjóður Mýrasýslu hafði einnig verið í samningaviðræðum við kröfuhafa sem fyrr segir. Niðurstaða þeirra viðræðna varð að Nýja Kaupþing eða Arion banki, sem var stærsti kröfuhafi sparisjóðsins, keypti allar eignir hans og greiddi fyrir með skuldabréfi og útgáfu nýrra hluta. Samhliða því eignaðist Nýja Kaupþing allt stofnfé Sparisjóðs Mýrasýslu.

Síðustu 12 mánuði hafa stjórnvöld haldið áfram að vinna með sparisjóðunum að því að finna viðunandi lausn á vanda þeirra sparisjóða sem enn voru standandi eftir áföll vetrarins 2008–2009.

Í mars á þessu ári töldust sjálfstætt reknir sparisjóðir 12 talsins á landinu með 47 afgreiðslustaði.

Eignir sparisjóðanna hafa að sjálfsögðu rýrnað frá því í árslok 2008 en hlutfallslega stærð má þó reikna út frá stöðu þeirra þá. Í árslok 2008 námu heildareignir sparisjóðanna um 690 milljörðum kr. samkvæmt bókfærðu mati. Þar af voru eignir Byrs, SPRON og dótturfélags þess nb.is, Sparisjóðsins í Keflavík og Sparisjóðs Mýrasýslu, sem nú eru allir komnir í þrot, um 625 milljarðar kr. alls og eignir allra annarra sparisjóða því til samans aðeins um 65 milljarðar kr. eða um tíundi hluti heildarinnar.

Af þessum fjórum stærstu sparisjóðum fóru SPRON og nb.is og Sparisjóður Mýrasýslu ýmist í þrot eða runnu inn í Arion banka á síðasta ári sem fyrr segir. Eftir hremmingar vorsins voru vandamál Byrs og Sparisjóðsins í Keflavík auk minni sparisjóðanna þannig enn óleyst. Stjórnvöld freistuðu þess að stuðla að því að vandi stærstu fyrirtækjanna tveggja yrði leystur í frjálsum samningum kröfuhafa og sparisjóðanna. Fyrir síðustu áramót lágu þannig fyrir drög að samkomulagi, en jafnframt þurfti að vinna ítarlegt mat á eignum og rekstrarhæfi sjóðanna þannig að kröfuhafar gætu tekið afstöðu til tilboðsins.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið og fjármálaráðuneytið létu einnig ráðgjafarfyrirtækið Oliver Wyman vinna ítarlega úttekt á endurskipulagningu sparisjóðanna, meðal annars til að meta þörfina fyrir eiginfjárframlag.

Um líkt leyti hóf Seðlabankinn einnig viðræður við minni sparisjóðina um formbreytingu krafna þeirra þannig að hluta krafna Seðlabankans á hendur sparisjóðunum yrði breytt í víkjandi lán en hluta í stofnfé. Víkjandi lánin yrðu færð yfir í eignarhaldsfélag Seðlabankans en stofnfé til Bankasýslu ríkisins gegn greiðslu úr ríkissjóði.

Viðræður Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur við kröfuhafa tóku drjúgan tíma og lengi vel virtist góð von um að samningar næðust. Í síðustu viku varð hins vegar ljóst að innlendir kröfuhafar höfðu ákveðið að fallast á samkomulag það sem lagt hafði verið fyrir, en umtalsverður hluti erlendra kröfuhafa var því mótfallinn. Fimmtudaginn 22. apríl ákváðu því stjórnir beggja sparisjóðanna að fara þess á leit við Fjármálaeftirlitið að það tæki yfir starfsemi viðkomandi fyrirtækis. Innstæður og eignir sparisjóðanna voru þá flutt til nýrra fjármálafyrirtækja sem stofnuð voru í þeim tilgangi af fjármálaráðuneytinu. SpKef sparisjóður tók við hlutverki Sparisjóðsins í Keflavík en Byr hf. við hlutverki Byrs sparisjóðs.

Nýjar stjórnir tóku við störfum að kvöldi fimmtudagsins 22. apríl. Starfsfólk Seðlabankans og Reiknistofu bankanna vann sleitulaust þá um kvöldið og nóttina við að færa allar innstæður og eignir milli kerfa og tryggja það að þjónusta tengd greiðslumiðlun, hraðbönkum, netbönkum og greiðslukortum gengi hnökralaust fyrir sig. Það gekk eftir og að morgni föstudagsins 23. apríl opnuðu þessar stofnanir og öll útibú þeirra undir nýjum nöfnum.

Enn er mikið verk óunnið við endurskipulagningu á rekstri þeirra sparisjóða sem enn eru starfandi í landinu. Ríkið hefur nú tekið, a.m.k. um tíma, yfir starfsemi tveggja stærstu sparisjóðanna sem eftir voru og von er á því að Bankasýsla ríkisins taki yfir eignarhluti minni sparisjóðanna að verulegu leyti.

Ríkisvaldið þarf óhjákvæmilega að móta stefnu um það hvernig það vill vinna úr málum sparisjóðakerfisins. Aðkoma efnahags- og viðskiptaráðuneytisins verður fyrst og fremst vegna regluverks og umgjarðar fjármálamarkaðarins. Hér má nefna að í júlí í fyrra voru samþykkt á Alþingi lög um breytingar á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki er vörðuðu sparisjóðina. Þar var m.a. tekið mið af þeirri vinnu sem fram fór í nefnd sem viðskiptaráðherra skipaði á árinu 2007 til að endurskoða ákvæði laga um fjármálafyrirtæki sem varða sparisjóði.

Lagabreytingarnar sem Alþingi samþykkti síðastliðið sumar fólu í sér að félagaform sparisjóðanna var skilgreint betur og eignarréttindi stofnfjáreigenda voru nánar afmörkuð. Þeir eiga þannig enga hlutdeild í óráðstöfuðu eigin fé eða varasjóðum sparisjóðsins. Tekið var fyrir að stofnaðir yrðu nýir hlutafélagasparisjóðir eða eldri stofnfjársparisjóðum breytt í hlutafélagasparisjóði. Hins vegar voru takmarkanir um sölu og innlausn stofnfjár felldar á brott þannig að viðskipti með stofnfé lytu sömu reglum og viðskipti með eignarhluti í öðrum fjármálafyrirtækjum. Einnig var sparisjóðum gert auðveldara að sækja sér nýtt stofnfé. Þrengt var að heimildum til arðgreiðslna með því að aðeins er heimilt að greiða út arð ef hagnaður hefur verið af rekstri og helmingur hagnaðar þarf að vera læstur inni í sjóðnum til frambúðar en ekki greiddur út sem hækkun stofnfjár eða arður. Þannig voru gerðar róttækar breytingar á rekstrarfyrirkomulagi sparisjóða, sérstaklega hvað varðar samskipti þeirra og arðgreiðslur til eigenda

Ekki verður svo skilið við málefni sparisjóðanna að ekki sé minnst á vanda stofnfjáreigenda. Á árunum 2007 og 2008 höfðu margir sparisjóðir undirbúið hlutafélagavæðingu eða sameiningar og gáfu af því tilefni út nýtt stofnfé. Fjöldi manna keypti þetta nýja stofnfé og tóku margir veruleg lán til kaupanna. Stofnfé þessa fólks hefur nú gufað upp að mestu eða jafnvel öllu leyti. Vandi þessara fjárfesta er tilfinnanlegur og sambærilegur vanda þeirra sem keyptu hlutafé í bönkum og öðrum skráðum félögum sem nú er orðið verðlaust. Á annað þúsund milljarða í hlutafé tapaðist þegar viðskiptabankarnir þrír féllu, en þær fjárfestingar voru einnig að miklum hluta fjármagnaðar með lánum. Vitaskuld er ekki hægt að gera upp á milli þeirra sem lenda í vanda vegna fjárfestinga sem þessara en það er brýnt að unnið verði úr þessari stöðu sem fyrst, einkum með samningum lánardrottna og lánþega sem gera hinum fjölmörgu fjölskyldum kleift að ná aftur tökum á fjármálum sínum.

Þótt hið endurreista sparisjóðakerfi verði til muna minna en það sem hrundi mun það áfram gegna mikilvægu hlutverki í hinu íslenska hagkerfi. Sparisjóðir munu sérstaklega skipta miklu við að tryggja aðgang að eðlilegri fjármálaþjónustu utan þéttbýlisins á suðvesturhorni landsins. Þeir munu hafa alla burði til að sjá einstaklingum og smærri fyrirtækjum fyrir grunnfjármálaþjónustu og hafa náin tengsl við sína heimabyggð. Þetta er eðlilegt hlutverk sparisjóða og í hinni löngu sögu íslenska sparisjóðakerfisins ræktu þeir þetta hlutverk lengst af með ágætum.

Sparisjóðir þurfa framvegis að gegna þessu hlutverki með miklu minni kostnaði en undanfarin ár. Sparisjóðum mun þurfa að fækka umtalsvert með sameiningu og sparisjóðakerfið mun þurfa að leggja niður eða skera verulega niður stóran hluta þeirrar yfirbyggingar sem byggð hefur verið upp vegna rekstrar sjóðanna undanfarin ár. Það á þó ekki að þurfa að koma að neinu umtalsverðu leyti niður á þeirri þjónustu sem þeir veita.

Það mun fyrst og fremst koma í hlut Bankasýslu ríkisins og forsvarsmanna sparisjóðanna að sjá til að þetta gangi eftir en einnig munu Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn gegna þar nokkru hlutverki. Jafnframt er mikilvægt að heimamenn á hverjum stað fái að koma að þessari vinnu enda munu þeir verða bæði viðskiptavinir og bakhjarlar sparisjóðanna, hér eftir sem hingað til.