138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:13]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra sagði áðan að það væri mjög kallað eftir því að þessu frumvarpi sem hér hefur verið mælt fyrir yrði lokið sem fyrst. Ég vil í þessu sambandi segja að ég tel að vinnsla þessa máls í þinginu hafi verið með algjörlega eðlilegum hætti.

Frumvarpinu var upphaflega dreift 6. febrúar sl. Umræðan fór fram og mælt var fyrir málinu 10 dögum síðar, 16. febrúar, og umræða um þetta umdeilda mál stóð ekki nema í rétt rúmlega þrjá tíma. Skjölum frá meiri hluta nefndarinnar var síðan dreift 23. mars, fimm vikum síðar, allt mjög eðlilegt, og umræðan hófst síðan tveimur dögum síðar og stóð þá í 20 mínútur. Nú er þeirri umræðu haldið áfram. Ég vildi vekja athygli á þessu til að undirstrika að ekki er með nokkrum hætti hægt að segja að þingið hafi tekið sér óeðlilegan tíma í vinnslu þessa máls. Það var staðið eðlilega, málefnalega og faglega að þeirri vinnslu þó að niðurstaða málsins sé þannig að við séum ekki öll endilega sammála um efni þess.

Ég vek hins vegar athygli á því að annað frumvarp var flutt sem eins konar viðhengi þessa frumvarps, frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðieftirlitsgjald, með síðari breytingum, sem fól það í sér að hæstv. ráðherra brá sér í hlutverk skattmanns. Hann lagði ekki á einhvers konar þjónustugjald heldur lagði hann drög að nýjum skatti sem sérstaklega væri lagður á þessar veiðar til að láta það síðan renna í gegnum Fiskistofu og þaðan inn til hafnanna í hlutfalli við þann afla sem landað væri af strandveiðibátum í einstakar hafnir. Ég vil þar með spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji forsendu þess að það frumvarp sem við ræðum hér verði samþykkt að þetta veiðieftirlitsgjald verði lagt á. Þetta eru um 30 millj. kr. Það munar talsvert um það. Auðvitað munar það bæði fyrir hafnirnar en einnig þá sem eru greiðendur þessa gjalds. Þess vegna væri gott að hæstv. ráðherra greindi okkur frá því hvort hann telji að það frumvarp þurfi að afgreiðast samhliða því sem við erum að ræða um.

Þessar strandveiðar sem svo eru kallaðar, sem eru einhvers konar uppvakning á gamla banndagakerfinu, hafa auðvitað heilmikið verið ræddar og við höfum oft rakið það hvernig það upphaflega birtist. Það birtist upphaflega sem hugmynd frá þáverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, og þá var hugsunin sú að strandveiðarnar ættu í raun að koma í staðinn fyrir byggðakvótann. Það höfðu verið deilur um byggðakvótann og nú átti að leysa þær með því að skipa málum með þeim hætti að við mundum innleiða þetta kerfi sem við erum að ræða um. Þetta kallaði á margs konar mótmæli eins og við munum, sérstaklega frá minni byggðarlögunum sem voru háðust byggðakvótanum. Niðurstaðan varð sú að verða einhvern veginn hvorki hrár né soðinn í niðurstöðunni heldur stíga hálft skref, skerða byggðakvótann um helming og síðan hafa þessar strandveiðar, byggja fiskveiðiréttinn í strandveiðunum á svæðum og láta aflaheimildirnar inn á svæðin í hlutfalli við útdeildan byggðakvóta áranna á undan. Þetta var hugsunin. Þess vegna voru búin til fjögur svæði sem fengu tilteknar aflaheimildir sem voru í samræmi við þá hlutdeild sem þessi svæði höfðu fengið úr byggðakvótanum.

Það er mjög mikilvægt að átta sig á því að út af fyrir sig hafa engin hagræn rök verið flutt fyrir þeim veiðum sem við erum hér að tala um. Ég hef ekki orðið var við að menn hafi í raun og veru neitt haldið því fram að þetta mundi leiða til einhverrar sérstakrar hagræðingar í kerfinu, draga úr kostnaði eða neitt slíkt. Þvert á móti hafa menn bent á sem sérstök rök með þessu fyrirkomulagi að það auki umsvif, eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson sagði áðan, í byggðarlögunum, búi til kostnað sem valdi síðan umsvifum og sé þess vegna svo gott. Þess vegna er ekkert óeðlilegt við það að þegar hæstv. ráðherra ákvað að láta leggja mat á gildi þessarar lagasetningar hafi hann tiltekið sérstaklega að ekki skyldi skoða hin hagrænu rök. Vitaskuld voru ekki hagrænir hvatar á bak við það að búa til þetta kerfi. Eins og hæstv. ráðherra sagði áðan var þetta eins konar svar við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna öðrum þræði og frumvarpið felur þess vegna það í sér að verið sé að opna almennan aðgang manna að fiskveiðiauðlindinni með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í þessari lagasetningu. Af þeim ástæðum eru einmitt að mínu mati fullkomin rök fyrir því að hverfa frá þessari svæðaskiptingu sem við bjuggum við á síðasta ári.

Gleymum ekki að lögin sem sett voru á síðasta ári voru tilraunalög. Það var einfaldlega sagt. Þetta var tilraunastarfsemi til eins árs og hugsunin var sú að menn ætluðu að prufukeyra kerfið, (Gripið fram í.) læra síðan af reynslunni, setja fram nýtt frumvarp sem fæli í sér einhverjar bragarbætur á þeirri löggjöf sem við höfum stuðst við á síðasta ári. Það er algjörlega óumdeilt að svæðaskiptingin mistókst, ég segi óumdeilt vegna þess að tölurnar einfaldlega segja okkur það. Það var mikil ásókn inn á A-svæðið, svæðið hér vestur undan. Þar kláruðu bátarnir heimildirnar sínar á fáeinum dögum. Á öðrum svæðum börðu menn þetta dögum saman áður en aflaheimildirnar kláruðust. Með öðrum orðum var aflareynslan á hverju svæði búin til á grundvelli úthlutaðs byggðakvóta. Þessi strandveiðilöggjöf hefur í raun og veru ekkert lengur með byggðakvóta að gera. Nú er ekki verið að taka hluta byggðakvótans eða hann allan inn í strandveiðikerfið. Það er einfaldlega verið að opna nýjan topp upp á 6 þús. tonn, u.þ.b. 5 þús. tonn af því eru væntanlega þorskur, og þá er ekki hægt að styðjast við einhverja reynslu af úthlutun byggðakvóta langt aftur í tímann. Það eru engin rök fyrir því. Ef menn ætla sér hins vegar að styðjast við einhverja svæðaskiptingu af þessu taginu væri miklu eðlilegra að hafa þetta fiskveiðiár sem nú er hafið sem einhvers konar tilraunaár til að búa til nýja viðmiðun til að deila inn á svæðið ef menn endilega vilja hengja sig á einhverja svæðaskiptingu til framtíðar. Það er fráleitt að ætla sér að búa til einhverja svæðaskiptingu byggða á úthlutunum í byggðakvótum sem hefur ekkert með þennan hluta fiskveiðistjórnarkerfisins að gera.

Rök fyrir því að gera þetta með þessum hætti eru líka þau að hugsunin á bak við þessa lagasetningu er sú að opna þennan almenna aðgang og þess vegna er fullkomlega eðlilegt í sjálfu sér að hafa svæðið eitt. Við vitum líka hvernig menn fóru í kringum þessa löggjöf án þess að brjóta hana með nokkrum hætti. Menn skráðu bátana sína inn á svæði A af því að þar var veiðivonin mest, ósköp eðlilegur hlutur. Það þekkjum við frá handfæraveiðunum oft og tíðum. Menn elta fiskinn og þess vegna gaf þessi svæðaskipting algjörlega ranga mynd.

Hæstv. ráðherra svarar óskaplega ógreinilega um það hvaða hugmyndir hann hafi um þessa svæðaskiptingu á þessu fiskveiðiári. Þetta er alvarlegur hlutur. Samkvæmt frumvarpinu er hugmyndin núna sú að strandveiðarnar geti hafist, verði þetta frumvarp að lögum, um helgina. Ég á ekki von á því að menn hefji veiðar á frídegi verkamanna, 1. maí, sem er á laugardaginn en strax þar í kjölfarið er væntanlega hugmyndin að hefja þessar veiðar. Þá er auðvitað ekki vonum seinna að hæstv. ráðherra hafi alveg skýra hugmynd um hvernig þessi svæðaskipting á að vera. Hann segir óljóst: Ég geri ráð fyrir að það verði ekkert mjög frábrugðið því sem var á síðasta ári. Það er þá algerlega kolröng viðmiðun miðað við það sem við erum að fara út í núna á þessum grundvelli. Þess vegna vil ég segja, virðulegi forseti, að ég tel að það væri a.m.k. eðlilegt að á þessu fiskveiðiári væri engin svæðaskipting í gildi. Ég tel reyndar eðlilegast til frambúðar að svo væri en a.m.k. í ljósi aðstæðna núna ætti engin svæðaskipting að vera á þessu fiskveiðiári þannig að menn gætu þá a.m.k. áttað sig á hver hin raunverulega veiðireynsla er og búið þá til skiptinguna niður á svæði í samræmi við það.

Hér var töluvert rætt um það hvort þetta frumvarp væri einhvers konar almenn yfirlýsing um aukningu á aflaheimildum. Það er alveg rétt að á þessu fiskveiðiári er klárlega um að ræða aukningu á aflaheimildum í þorski og fáeinum öðrum tegundum, væntanlega ufsa og kannski ýsu og fáeinum öðrum tegundum. Það er alveg ómótmælanlegt og þegar fiskveiðiárið verður gert upp mun það auðvitað koma fram. Þetta er aukning á aflaheimildum í þessum tegundum, og í þorskinum um kannski 3–4%, 3–4% kvótaaukning á þessu fiskveiðiári. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að menn sem sjá þann möguleika í þeim vandræðum sem þeir eru í núna með aflaheimildir fagni því að fá 3–4% aflaaukningu í þorski. Gallinn er auðvitað sá að gert er ráð fyrir að þetta fari eingöngu til handfæraveiða sem stundaðar eru yfir sumarmánuðina og hæstv. ráðherra hefur einmitt vísað á þessar veiðar sem svar við hinni almennu kröfu um að auka aflaheimildir í þorski. Hæstv. ráðherra leggur t.d. í Skessuhorninu 7. apríl sl. áherslu á að frumvarpið um strandveiðar væri í meðförum þingsins og þar fælust þrátt fyrir allt heimildir til að veiða 6 þús. tonn af botnfiski. Hæstv. ráðherra er með öðrum orðum að svara þeim sem kalla eftir auknum aflaheimildum með því að vísa í það að hann sé að auka kvótann í þorskinum með þessum hætti.

Hér var spurt hvort þetta væri almennt og yfirlýst markmið um að þetta yrði síðan gert til frambúðar. Svo er auðvitað ekki. Hæstv. ráðherra getur svarað þeirri spurningu mjög skýrt og afdráttarlaust.

Í 2. gr. þessa frumvarps er kveðið mjög skýrt á um það að í framtíðinni, auðvitað ekki núna því að það er búið að taka aðrar ákvarðanir, skuli draga þessar aflaheimildir sem fara til strandveiðibátanna frá heildarúthlutuninni áður en farið er í það síðan að úthluta heimildum til krókaaflamarksbáta, þ.e. smábátanna, og aflamarksbátanna, stórra og smárra. Með öðrum orðum er þetta alveg skýr lína. Aflaaukningin er núna en hún verður ekki á næsta fiskveiðiári.

Þetta vekur athygli á því að fyrirkomulagið eins og það er í dag er mjög óréttlátt. Þessar tilfærslur sem við höfum í dag sem ég út af fyrir sig styð, tilfærslurnar til byggðakvóta, skelveiðibáta, línuívilnunar o.s.frv., koma fyrst og fremst niður á þeim skipaflokkum þar sem veiðin er einkanlega í þorski, ýsu, ufsa og steinbít. En þeir bátar sem eru með aflaheimildir fyrir utan þetta þurfa ekki að leggja neitt með sér inn í þessar tilfærsluheimildir. Þetta er mjög óréttlátt. Ég er sjálfur 1. flutningsmaður að frumvarpi sem gerir ráð fyrir að þessu verði breytt og að allir bátar leggi inn í þessa tilfærslupotta á grundvelli þorskígildisheimilda sinna þannig að uppsjávarskipin, þeir sem veiða karfa og aðrar tegundir sem ekki er tekið tillit til í þessu, þurfi líka að leggja til með sér. Þetta verður mun augljósara þegar búið verður að taka tillit til strandveiðipottsins upp á u.þ.b. 5 þús. tonn í þorski, þá eru þessar tilfærslur frá þeim sem eru með þorskaflaheimildir orðnar í kringum 8,3%. Það er farið að taka svolítið í hjá til að mynda litlum útgerðarmönnum, litlum bátum sem eru með tiltölulega litlar heimildir en eru samt að mestu leyti með aflaheimildir sínar í þorski. Þess vegna er orðið mjög brýnt að gera þessar breytingar og ég tel skynsamlegt að það sé gert, m.a. með hliðsjón af þeirri lagasetningu sem hér er verið að leggja til og verður að sjálfsögðu samþykkt því að væntanlega er meirihlutavilji þingsins fyrir því.

Síðan er annar angi þessa máls sem ég vil líka aðeins nefna og það er að fyrir liggur stofnstærðarmat Hafrannsóknastofnunar. Að vísu á eftir að vinna betur úr því en þær vísbendingar sem við höfum úr fréttatilkynningu stofnunarinnar frá 16. apríl sl. gefa okkur vísbendingar um að þess sé ekki að vænta að stofnunin muni leggja til auknar aflaheimildir í þorski.

Á þessu fiskveiðiári var aflakvótinn 150.000 tonn en hefði orðið 140.000 tonn ef eingöngu hefði verið fylgt 20% aflareglunni. Það er hins vegar að hálfu tekið tillit til aflakvótans eins og hann var á fiskveiðiárinu á undan og fyrir vikið hífðist þessi kvóti upp í 150.000 tonn. Ég spurði hæstv. ráðherra um þetta á miðvikudaginn og hæstv. ráðherra svaraði því þannig að hann vonaðist til þess að heildaraflakvótinn í þorskinum yrði ekki mjög fjarri því sem hann er á þessu fiskveiðiári, þ.e. nálægt 150.000 tonn. Gefum okkur að það verði niðurstaðan. Það er að vísu dálítil bjartsýni miðað við þær forsendur sem maður les út úr þessu en gefum okkur það engu að síður. Þá á hins vegar eftir að draga frá 5 þús. tonn til strandveiðanna í þorski sem ekki voru dregin frá á þessu fiskveiðiári. Mér sýnist af þessu og miðað við það sem hæstv. ráðherra var sjálfur að segja, um að hann vænti þess að heildarúthlutunin yrði svipuð og á þessu ári, að það hljóti að benda til þess að heildaraflamarkið fyrir krókaaflamarksbátana sem eru minni bátarnir, undir 15 tonnum, og heildaraflamarkið verði nokkru minna en á yfirstandandi fiskveiðiári sem kemur örugglega mjög á óvart í ljósi þeirrar umræðu sem hefur farið fram um fiskveiðiráðgjöfina og möguleikann á því að auka aflaheimildirnar.

Úr því að ég er farinn að tala um þetta langar mig að nota ferðina og spyrja hæstv. ráðherra einnar spurningar. Hæstv. ráðherra beitti sér fyrir því með umdeildum hætti að draga úr yfirfærslum á milli fiskveiðiára í einstökum fisktegundum. Þetta gerði hann illu heilli. Nú blasir hins vegar við af sama áliti Hafrannsóknastofnunar að reikna má með því að ýsukvótinn verði skorinn niður á milli ára því að það segir í álitinu að stofnvísitala ýsu lækki um fjórðung frá mælingunni 2009 og sé nú bara þriðjungur af meðaltali áranna 2003–2007. Væri ekki nauðsynlegt að hafa þessar heimildir til yfirfærslu á milli fiskveiðiára rýmri en 10% eins og hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir? Hæstv. ráðherra hefur möguleika í einni af sínum galopnu heimildum á að hverfa frá þessu og nú spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki eðlilegt, í ljósi þess að við þurfum að styrkja markaðsstöðu okkar, í ljósi þess að við þurfum að reyna að jafna út þessar sveiflur, að hækka a.m.k. yfirfærsluréttinn í ýsunni þannig að menn geti jafnað þessa sveiflu frá því sem ella verður.

Hér hefur verið talað um að ekki væri óeðlilegt að fjölga banndögunum í kringum helgar og ég vil segja strax að ég væri jákvæður fyrir því. Ég tel rök fyrir því, ekki síst vinnsluleg rök sem geta hnigið að því að fjölga þessum dögum. Ég mun a.m.k. skoða það jákvætt.

Ég vil líka segja, í ljósi þess að þetta frumvarp gengur út á það að opna mönnum heimildir að fiskveiðiauðlindinni með þeim hætti sem hérna er gert ráð fyrir, að ég tel mjög mikilvægt að a.m.k. sé reynt að hafa einhvern sveigjanleika í þessu kerfi. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að menn geti hafið strandveiðar nánast hvenær sem er á bilinu 1. maí fram undir 1. september. Þess vegna eru öll rök og líka sanngirnisrök sem mæla með því að menn geti líka farið út úr þessu kerfi á þeim tímapunkti sem hentar. Það kann að vera að útgerðum henti að fara inn í þetta strandveiðikerfi, fá hlutdeild úr kvótaaukningunni með þeim hætti en þeim henti síðan að fara út úr þessu kerfi einhvern tíma þegar liðið er á þessa mánuði, t.d. til þess að ná í þann umdeilda fisk skötusel svo dæmi sé tekið eða þá að stunda aðrar veiðar, netaveiðar eða einhverjar aðrar veiðar sem henta mönnum betur á síðari hluta tímabilsins. Ég vil leggja inn í þessa umræðu að það væri eðlilegt að við reyndum að gera þær breytingar í meðförum þingsins því að málið mun koma inn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd milli 2. og 3. umr. Ég tel eðlilegt að reyna að sníða einhverja agnúa af þessu frumvarpi og gera það t.d. með þessum hætti.

Ég veit að hæstv. ráðherra hefur talað gegn því að auka sveigjanleikann í fiskveiðistjórnarkerfinu. Hann telur slæmt að hafa mikinn sveigjanleika. Þrátt fyrir orð hans í þá veru þegar hann hefur talað fyrir öðrum málum trúi ég ekki öðru en að það geti a.m.k. orðið niðurstaða að hafa þennan sveigjanleika í kerfinu sem geti þá stuðlað að því að menn geti nýtt sér þá möguleika sem löggjöfin felur í sér til að auka tekjur sínar, verðmætasköpunina og atvinnusköpunina í landinu.

Virðulegi forseti. Út af fyrir sig væri hægt að hafa mörg orð um þetta tiltekna mál. Skoðanir mínar hafa svo sem ekki farið mjög leynt í þessum efnum. Ég tel að almennt sé mikill galli við þetta frumvarp, eins og mörg önnur frá hæstv. ráðherra, þetta ráðherraræði sem tröllríður þessu frumvarpi, þessi galopna heimild til hans til að stjórna þessum svæðum eins og hann vill eftir „smag og behag“ svo ég sletti dönsku eins og stundum áður. Það væri eðlilegra að þessum málum væri skipað með lögum og ég tel að það væri eðlilegt til frambúðar (Forseti hringir.) að svæðið sem hér er lagt til grundvallar væri bara eitt.