138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[16:28]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi en með frumvarpinu erum við að leggja til rammalöggjöf um það hvaða ívilnanir stjórnvöldum og eftir atvikum sveitarfélögum er heimilt að veita vegna nýfjárfestinga hér á landi.

Í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna frá því í maí 2009 kemur fram að lögð verður áhersla á að kortleggja sóknarfæri Íslands í umhverfisvænum iðnaði og ýta undir fjárfestingar með tímabundnum ívilnunum. Til að ná góðum og jöfnum hagvexti sem er forsenda fyrir nýjum efnahagslegum og félagslegum stöðugleika á Íslandi þarf að stuðla að beinum erlendum fjárfestingum. Að þessu hefur verið unnið í þessu frumvarpi í töluverðan tíma og tel ég að við séum að kynna nokkuð góða niðurstöðu í þeim efnum en markmiðið með frumvarpinu er að örva og efla fjárfestingu í atvinnurekstri á Íslandi með því að tilgreina með gegnsæjum hætti í lögum hvaða heimildir stjórnvöld og sveitarfélög hafa til að veita skilgreindar ívilnanir til nýfjárfestinga.

Með frumvarpinu er verið að leggja til að horfið verði frá því fyrirkomulagi sem hefur tíðkast hér á landi að gera sértæka fjárfestingarsamninga vegna einstakra verkefna á grundvelli sérstakra heimildarlaga frá Alþingi, eins og við þekkjum orðið nokkuð vel, og síðan samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA eftir því sem þörf hefur verið metin á í hvert skipti. Hefur það fyrirkomulag reynst þungt í vöfum og ómarkvisst og með því formi er ekki boðið upp á nægilegan sveigjanleika til að mæta ólíkum fjárfestingarverkefnum.

Virðulegi forseti. Í þessum efnum þurfum við auðvitað að horfa til jafnræðis. Við þurfum líka að horfa til þess að tiltölulega fáir fjárfestingarsamningar hafa verið gerðir hér á landi. Frá árinu 1966 hafa sex verið undirritaðir og sá sjöundi er hugsanlega í meðförum þingsins núna. Þessir sex fjárfestingarsamningar sem undirritaðir hafa verið eru vegna álvera og járnblendiverksmiðju, þ.e. stóriðju, þannig að þessar sérstöku ívilnanir og örvanir til uppbyggingar hafa verið notaðar til tiltölulegra einhæfra verkefna.

Það sem skiptir máli er að þetta frumvarp á að tryggja hvata og örvun til fjölbreyttari nýfjárfestinga hér á landi og að fyrir fram liggi fyrir hvaða samspil ívilnana bjóðist vegna nýfjárfestinga hér á landi og þannig verði með markvissum hætti reynt að auka möguleika á því að fá til landsins fjölbreyttar og jákvæðar nýfjárfestingar. Bara svo ég nefni það aftur að þegar við skoðum stöðu fjárfestinga hér á landi í gegnum tíðina, fyrir utan bankana sem standa ekki lengur, þá hafa erlendar fjárfestingar verið meira og minna í einni grein, stóriðjunni. Þessu viljum við breyta og reyna að fá hingað til lands fjölbreyttari nýfjárfestingar. Þannig yrði unnt innan þess ramma sem fram kemur í frumvarpinu að veita ólíka samsetningu ívilnana til ólíkra verkefna eftir því sem þörf krefur. Að því gefnu að veiting slíkra ívilnana samkvæmt ströngum kröfum í frumvarpinu hefði í för með sér efnahags- og samfélagslegan ávinning fyrir landið.

Víða í nágrannaríkjum okkar eru ívilnanir vegna nýfjárfestinga í boði og væri því með þessari lagasetningu verið að efla samkeppnishæfi Íslands hvað erlenda fjárfestingu varðar og gera Íslandi betur kleift að nýta þá sérstöðu sem landið hefur í alþjóðlegu tilliti. Þær ívilnanir sem lagðar eru til í frumvarpinu felast annars vegar í byggðaaðstoð fyrir fjárfestingarverkefni í landsbyggðakjördæmunum þremur sem samanstendur af stofnfjárstyrkjum, frávikum frá tilteknum sköttum og opinberum gjöldum og sölu eða leigu á landi eða lóð á hagstæðu verði. Hins vegar er um að ræða almenna aðstoð óháð staðsetningu verkefnisins sem felst í þjálfunaraðstoð, aðstoð vegna nýfjárfestinga lítilla og meðalstórra fyrirtækja, rannsóknar- og þróunaraðstoð og aðstoð vegna umhverfistengdra fjárfestingarverkefna. Þær ívilnanir sem tilgreindar eru í frumvarpinu eru samblanda af því sem þekkist í nágrannalöndum okkar og þeim ívilnunum sem hafa verið í fyrri fjárfestingarsamningum. Það ber líka að taka fram að í þeim fjárfestingarsamningum sem gerðir hafa verið vegna stóriðjunnar hefur ívilnanatímabilið oftast staðið yfir í 40 ár. Samningurinn vegna álversins í Helguvík er eingöngu til 20 ára. Hér er gert ráð fyrir 10 árum eða skemmri tíma, þ.e. stuðningurinn yrði eingöngu á upphafsárum fjárfestingarinnar hér á landi þannig að þótt einstök ákvæði séu sambærileg eru þetta gríðarlegar breytingar, tímalengdin verður allt önnur en áður.

Í frumvarpinu er lagt til að skilyrði fyrir veitingu ívilnunar verði eftirfarandi, þ.e. að stofnað verði sérstakt félag um fjárfestingarverkefni hér á landi. Fyrir liggi greinargóðar upplýsingar um fjárfestingarverkefnið, þá aðila sem að því standa, fjármögnun og aðrar slíkar upplýsingar, að fyrirhugað fjárfestingarverkefni sé ekki þegar hafið og sýnt sé fram á að veiting ívilnunar sé forsenda þess að verkefnið verði að veruleika. Einnig eru skilyrði um það að a.m.k. 65% af fjárfestingarkostnaði séu fjármögnuð án ríkisaðstoðar og þar af séu að lágmarki 20% fjármögnuð af eigin fé þess aðila sem sækir um ívilnun, árleg velta fyrirhugaðs verkefnis sé a.m.k. 300 millj. kr. eða að nýfjárfestingin skapi a.m.k. 20 ársverk á fyrstu tveimur árunum. Fyrir liggi arðsemisútreikningar sem sýni fram á að nýfjárfestingin sé þjóðhagslega hagkvæm út frá hagsmunum íslensks atvinnulífs og samfélagslegu sjónarmiði, t.d. atvinnusköpun, byggðaþróun, útflutningi, skatttekjum, nýsköpun og aukinni þekkingu.

Þá er jafnframt eitt af skilyrðunum að um nýfjárfestingu sé að ræða og að allur búnaður og tæki séu ný. Einnig þarf viðkomandi nýfjárfesting að vera notuð í a.m.k. fimm ár hér á landi. Gæta verður þess að sú starfsemi félagsins sem ívilnun nýtur sé að öllu leyti í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli og það skilyrði er jafnframt í frumvarpinu að ekki séu fyrir hendi vangreiddir skattar eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga.

Þá er í frumvarpinu lagt til að þriggja manna nefnd fari yfir umsóknir um ívilnun og meti hvort skilyrði laganna séu uppfyllt. Iðnaðarráðherra skipar nefndina og skulu fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra tilnefna fimm menn hvor en sá þriðji skal skipaður án tilnefningar og vera formaður nefndarinnar. Umsækjandi leggur fram nauðsynleg gögn og fjárfestingarstofa framkvæmir arðsemisútreikninga sem sýna efnahagslegan og samfélagslegan ávinning. Nefndin gerir tillögur til ráðherra sem síðan leggur fram boð um ívilnun sem byggir á þeim heimildum sem eru í lögunum. Þannig gefst kostur á að hafa mismunandi samsetningu ívilnana eftir ólíkum fjárfestingarverkefnum innan þess ramma og þetta byggir allt á þeim ramma sem settur er í regluverki Evrópusambandsins. Í störfum sínum geti nefndin því að teknu tilliti til ákvæða stjórnarskrár og stjórnsýslulaga t.d. veitt frekari ívilnanir eða ríkari ívilnanir til fjárfestingarverkefna á ystu jaðarsvæðunum, þ.e. hinum efnahagslega köldu svæðum á landsbyggðinni heldur en til verkefna í námunda við höfuðborgarsvæðið séu fyrir því málefnaleg rök og að því gefnu að veitingin sé innan ramma þeirra hámarka sem sett eru með lögunum.

Í framhaldi af ákvörðunum um veitingu ívilnunar er undirritaður samningur milli ráðherra og umsækjanda um veitingu ívilnunar þar sem kveðið er á um réttindi og skyldur aðila. Þá er eins og áður segir lagt til að þær ívilnanir sem kveðið er á um í slíkum samningi geti að hámarki staðið yfir í tíu ár. Með frumvarpinu er því verið að leggja til ákveðið ríkisaðstoðarkerfi sem sé háð samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA í samræmi við 61. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Mikilvægt er að lagt er til að lögin verði tímabundin eða gildi til 31. desember árið 2013 og að þeim tíma liðnum fari fram endurskoðun og mat á árangri vegna þess að markmiðið með þessari löggjöf er að sjálfsögðu að örva nýfjárfestingu við þær aðstæður sem við búum við og því mikilvægt að það sé metið þegar sæmileg reynsla er komin á það. Þessi dagsetning er ekki algerlega úr lausu lofti gripin heldur er hún notuð vegna þess að á sama tíma fellur úr gildi núgildandi byggðakort fyrir Ísland sem afmarkar heimildir íslenskra stjórnvalda til byggðaaðstoðar og þá gefst færi á að endurskoða þessi lög og sérstök nefnd verður sett í það að yfirfara og meta hvernig til hefur tekist.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu mælist ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar og ég á von á fjörlegum umræðum um það og vona svo sannarlega að þetta mál eigi eftir að fá brautargengi og að þingheimur sé tilbúinn til að koma með okkur í þann leiðangur að horfa með almennum hætti á ívilnanir vegna fjárfestinga og fara í þetta þriggja ára verkefni til að freista þess að örva nýfjárfestingar hér á landi sem svo sannarlega er þörf á í samfélaginu eins og staðan er í dag. Ég vona svo sannarlega að þetta mál eigi eftir að hljóta jákvæða meðferð og niðurstöðu hjá iðnaðarnefnd þannig að við getum einhent okkur í verkið til að örva fjárfestingar hér á landi.