138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[16:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Áður en lengra er haldið langar mig til að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort ekki sé réttur skilningur hjá mér að hér sé átt við allar nýfjárfestingar í atvinnulífi. Hér er ekki verið að tala sérstaklega um erlendar fjárfestingar vegna þess að í opinberri umræðu um þetta mál hefur borið við að fyrst og fremst er horft til erlendra fjárfestinga. Ég vildi bara biðja hæstv. iðnaðarráðherra að staðfesta að sá skilningur minn sé réttur að átt sé við allar fjárfestingar, jafnvel þó að um alíslenska aðila og fjárfesta væri að ræða gætu þeir nýtt sér þær ívilnanir sem frumvarpið býður upp á.

Í annan stað er ljóst að markmið þessa frumvarps er að setja almennar reglur í stað sérlaga vegna einstakra fjárfestingarverkefna. Ég vil spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvaða áhrif hún sjái fyrir sér að frumvarpið og hugsanleg afgreiðsla þess í þinginu hafi á frumvarp um slíkan sérstakan fjárfestingarsamning sem er til meðferðar í þinginu. Ég er auðvitað að vísa til samningsins við Verne Holdings um gagnaver á Suðurnesjum. Óneitanlega mundi það skjóta dálítið skökku við að afgreiða sérstakan fjárfestingarsamning vegna eins tiltekins verkefnis á sama tíma og almenn lög eiga að taka við öllum slíkum sértækum lausnum.