138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[16:48]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum nokkuð áhugavert mál og ég held að í stóra samhenginu séum við að fjalla hér um eðlilegt og rétt skref sem vonandi getur fært okkur fram á veginn. Í athugasemdum við þetta frumvarp segir m.a.:

„Markmið frumvarpsins er að örva og efla fjárfestingu í atvinnurekstri á Íslandi með því að tilgreina með gegnsæjum hætti í lögum hvaða heimildir stjórnvöld og sveitarfélög hafa til að veita skilgreindar ívilnanir til fjárfestingarverkefna.“

Hér er einnig talað um kosti Íslands frá sjónarhóli fjárfesta og kannski er sérstaklega horft til erlendra fjárfesta, en í samstarfsyfirlýsingu Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er m.a. sagt að áhersla verði lögð á „að kortleggja sóknarfæri Íslands í umhverfisvænum iðnaði og ýta undir fjárfestingar með tímabundnum ívilnunum“ til að ná góðum og jöfnum hagvexti sem sé forsenda fyrir nýjum efnahagslegum og félagslegum stöðugleika á Íslandi og til að ná því markmiði þurfi að stuðla að beinum erlendum fjárfestingum.

Þetta hljómar allt saman mjög fallega þó að maður hafi ekki alveg séð í aðgerðum ríkisstjórnarinnar hvernig hún ætlar að nálgast þetta mál sannfærandi. Hér segir m.a. í athugasemdunum, með leyfi forseta:

„Kostir Íslands frá sjónarhóli fjárfesta eru margvíslegir. Dæmi um það eru umhverfisvænar orkuauðlindir landsins, hagstætt raforkuverð, hátt menntunarstig, sveigjanlegt vinnuafl, sértæk tækniþekking, landrými og hafnarskilyrði, fríverslunarsamningar, lágir fyrirtækjaskattar og stöðugleiki í stjórnkerfinu.“

Þessir kostir hafa greinilega verið skrifaðir snemma í ferlinu vegna þess að ég held að við getum ekki sagt að lágir fyrirtækjaskattar séu hér í gildi lengur ef við berum okkur saman við þau lönd sem við horfum helst til í samkeppni á þessum vettvangi. Þegar maður les yfir bæði þessar athugasemdir og línurnar úr samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna fær maður efasemdir um að hugur fylgi máli. Að minnsta kosti hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar síst verið valdar til þess að auka á samkeppnishæfi landsins. Miklu frekar hefur verið dregið úr því samkeppnisforskoti sem við höfðum á mörg önnur lönd með þeim aðgerðum og því aðgerðaleysi sem hefur ráðið hér ferð af hálfu þessarar ríkisstjórnar frá því að hún tók við.

Ég efast ekki um góðan vilja hæstv. iðnaðarráðherra í þessu máli og ég mun leggja mitt af mörkum innan iðnaðarnefndar til að vinna málinu góðan farveg eins og öllum góðum málum sem stuðla að atvinnuuppbyggingu hér á landi, sérstaklega við þær erfiðu aðstæður sem við búum við núna. Ég hef aðeins áhyggjur af því sem kemur fram í ákveðnum kafla, eins og segir hér, að í „61. gr. EES-samningsins kemur fram sú meginregla að óheimilt er að veita ríkisaðstoð sem er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila“.

Ég hef aðeins áhyggjur af framkvæmd þessara mála og ég vil að það verði litið alveg sérstaklega til þessa þáttar af því að hér er farið í miklu víðtækari nálgun á ívilnunum fyrir fyrirtæki. Það er horft til miklu stærri hóps fyrirtækja en við höfum almennt starfað með og gert sérstaka samninga við þessu skylda. Þess vegna er mjög mikilvægt að litið sé til þessa þáttar.

Í c-lið 5. gr. segir m.a. um skilyrðin „að fyrirhugað fjárfestingarverkefni sé ekki þegar hafið og að sýnt sé fram á að veiting ívilnunar sé forsenda þess að fjárfestingarverkefnið verði að veruleika hér á landi“ við mat á því hvort veita eigi ívilnun vegna nýfjárfestingar samkvæmt lögum.

Varðandi samkeppnisdæmið sem ég er að fjalla um erum við hér að gera sérstakan fjárfestingarsamning vegna gagnavers á Suðurnesjum. Á sama tíma eru íslenskir aðilar að byggja upp grunn að gagnaveri í Hafnarfirði. Þeir hafa þegar stigið fyrstu fjárfestingarskrefin. Þeir fjármagna þetta fyrir eigið fé í dag af því að þeir hafa ekki aðgang að bankakerfinu varðandi fjármagn. Þetta eru öflugir aðilar og þeir hafa getað fjármagnað þetta með eigin fé. En þessir aðilar munu væntanlega samkvæmt þessu ekki njóta sömu ívilnana og þetta fyrirtæki sem starfar á sama vettvangi, það sem við erum að fjalla um sérstakan fjárfestingarsamning við á Suðurnesjum, Verne Holdings.

Það er þetta nákvæmlega sem ég hef áhyggjur af, að við getum skekkt samkeppnishæfi fyrirtækja. Þetta verðum við að passa vel, við verðum að horfa alveg sérstaklega til þessa þáttar.

Ívilnanirnar eru gríðarlega fjölbreyttar sem er í sjálfu sér ágætt vegna þess að auðvitað er mismunandi hvað getur hentað hverju fyrirtæki, en þetta nær til skattstofna, fyrningarreglna, stimpilgjalda, fasteignaskatta, tolla og vörugjalda, svo eitthvað sé nefnt. Hérna koma inn í með meira vægi en áður smá og meðalstór fyrirtæki.

Þá veltir maður því aðeins fyrir sér hvar skilgreiningin liggur í þessu. Frumvarpið er mikill doðrantur og fylgja því margar tilvitnanir í regluverk frá Evrópusambandinu. Þar segir m.a., með leyfi forseta, í reglum um byggðaaðstoð:

„Samkvæmt því byggðakorti sem gildir á Íslandi frá 2007–2013, sbr. ákvörðun ESA frá 6. desember 2006, mega íslensk stjórnvöld veita byggðastyrki til verkefna í landsbyggðarkjördæmunum þremur, þ.e. Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Hámark styrks má“ vera svo og svo mikið, þó er mögulegt að hann hækki fyrir þessi fyrirtæki þegar um lítil fyrirtæki er að ræða. Með meðalstóru fyrirtæki hér er átt við fyrirtæki sem hefur 50–250 starfsmenn.

Hérna er væntanlega verið að vitna beint í reglur ESB. Það gefur augaleið að 50 manna fyrirtæki á landsbyggðinni hjá okkur er almennt flokkað sem mjög stórt fyrirtæki. Við þurfum auðvitað að skoða þessar skilgreiningar vel og munum fara yfir þær í nefndinni. Ég held að þessi sérákvæði um viðbótaraðstoð gagnvart atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni séu af hinu góða. Það er ljóst að til þess að stemma stigu við þeirri byggðaþróun sem hefur orðið þurfum við að grípa til aðgerða. Það má segja að stjórnvöld hafi á vissan hátt brugðist þegar fiskveiðistjórnarkerfinu var komið á á sínum tíma, en markmið þess var auðvitað að leita aukinnar hagkvæmni og hagræðingar í sjávarútvegi til að sú grein gæti skilað meiri arði. Þar hefur tekist það vel til að það hefur stórkostlega fækkað þeim mannskap sem þarf til að starfa, bæði til sjós og lands, og stjórnvöld hafa á vissan hátt brugðist í því á sama tíma að líta til eflingar annarra atvinnutækifæra á landsbyggðinni. Það á að vera forgangsatriði hjá okkur, áhugafólki um að halda dreifðri byggð í landinu sem ég tel að við séum öll, og þá eigum við að leggja mikla áherslu á að reyna að leggja því lið eins og hægt er og snúa við þeirri þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár.

Í frumvarpinu er m.a. farið yfir þau skilyrði sem eru fyrir veitingu ívilnana. Ég vitnaði áðan í c-liðinn þar sem fram kemur að fyrirhugað fjárfestingarverkefni sé þegar hafið. Hér eru mörg önnur skilyrði í mörgum liðum. Þá kemur upp í hugann það dæmi sem hv. þm. Birgir Ármannsson spurði hæstv. ráðherra um áðan, þ.e. verkefni gagnavers á Suðurnesjum, Verne Holdings. Það mál er búið að vera núna í nokkra mánuði til umfjöllunar í hv. iðnaðarnefnd og hefur ekki fengið þar afgreiðslu. Þrátt fyrir að ráðuneytið hafi verið búið að ganga frá þessum samningi og þrátt fyrir að málið hafi fengið sína kynningu í ríkisstjórnarflokkunum og verið samþykkt hefur það strandað í nefndinni og það er ekki af völdum minni hlutans.

Ef það frumvarp sem við fjöllum hér um í dag væri komið í gegnum þingið væru væntanlega málefni Verne Holdings ekki á borði hv. iðnaðarnefndar. Þá hefði ráðuneytið getað á grundvelli þessa frumvarps lokið því samkomulagi og við hefðum ekki þurft að vera með puttana í því.

Það sem hefur staðið í mönnum og stendur í fólki í nefndinni er siðferðilegi þátturinn sem snýr að því að veita fyrirtæki ívilnanir sem að hluta til er í eigu eins aðila, fyrirtækisins Novators, sem er í eigu Björgólfs Thors, þess aðila sem margir telja að hafi leikið stóran þátt í efnahagshruni landsins. Margir þingmenn setja það fyrir sig, kannski skiljanlega, að veita þeim aðilum fyrirgreiðslu.

Að mínu viti erum við komin út á ansi hálan ís á Alþingi þegar við erum farin að dæma í málum áður en dómstólar hafa fjallað um þau. Ekkert í skilyrðum frumvarpsins tekur til þess sem þetta frumvarp strandar á, þ.e. fjárfestingarsamnings vegna Verne Holdings. Það er ekkert í þessum skilyrðum sem mundi stöðva framgang þess máls.

Eftir langa umræðu er staðan í málinu þannig að búið er að gera samkomulag við Novator um að allur arður af því verkefni sem hlýst af skattalegum ívilnunum verði endurgreiddur til ríkisins. Það eru margir sem lýsa ánægju sinni með að sá árangur skuli hafa náðst, en mér finnst þetta ansi tvíbent. Ég hef spurt að því sérstaklega hvort það sé möguleiki að jafnræðisreglan sé brotin í þessu tilliti og einhverjir telja að svo sé. Þekkja það margir betur en ég, ég er ekki lögfræðimenntaður.

Við erum sem sagt farin að þvinga fram ákveðin skilyrði frá viðsemjendum í þessu máli vegna þess að það hefur nánast legið fyrir að ef menn ganga ekki að einhverjum slíkum kostum verði málið ekki afgreitt af hálfu nefndarinnar. Fjárfestingin er þannig í uppnámi. Mér finnst ansi langt gengið þegar Alþingi er farið að beita sér með þessum hætti, að það megi leiða að því rök að við séum að þvinga í gegn ákveðin skilyrði í samningum sem byggjast í raun á siðferðilegum forsendum, alls ekki lagalegum. Það liggur ekki neitt lögbrot að baki til að rökstyðja þessa niðurstöðu.

Við sjáum hvernig þetta fer. Ég met þann samning og hagsmuni af honum það mikla að ég legg til að hann verði keyrður í gegn. Það liggur fyrir að eignarhlutur Novators mun rýrna verulega við aðkomu þessara erlendu fjárfesta og ég tel að verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með því að standa í vegi fyrir því að þetta mál geti farið í gegn sem allra fyrst.

Undanfarið hafa hæstv. ráðherra og fleiri talað mikið um að mörg tækifæri séu í pípunum. Ég hef af því tilefni óskað eftir fundi í iðnaðarnefnd með þeim opinberu aðilum sem koma að viðræðum við erlenda fjárfesta til að nefndin geti fengið yfirlit yfir það. Hv. formaður iðnaðarnefndar, Skúli Helgason, hefur orðið við þeirri beiðni minni og segist boða fund núna öðrum hvorum megin við helgi.

Ég sagði áðan að ég mundi leggja allri þeirri vinnu lið sem snýr að því að reyna að efla íslenskt atvinnulíf. Ég tel að þetta frumvarp geti verið að mörgu leyti gott skref í þá áttina. Ég ítreka þó að hugur verður að fylgja máli hjá ríkisstjórninni. Það er ekki nóg að hæstv. iðnaðarráðherra hafi góðan hug, góðar hugmyndir og vilja til að gera vel. Hann verður, eða hún í þessu tilfelli, að hafa fulltingi innan hæstv. ríkisstjórnar til að geta komið málum áfram en á það hefur verulega skort.